Það var ekki ýkja mikið fjölmenni á Austurvelli áðan, verður að segjast eins og er.
En það var mjög þungt andrúmsloft. Margir viðbúnir að fleyja eggjum og mjólk í alþingismenn þegar þeir gengju milli Dómkirkjunnar og Alþingishússins.
Það gerðu þeir ekki, þeir kusu að fara bakdyramegin inn í þinghúsið – sem er dálítið táknrænt. Virðing þingsins er ekki mikil þessa dagana.
Svo er spurning hvort þessar mótmælaaðgerðir halda áfram, hvort þær eru vísir að einhverju meiru. Það virkaði eins og dálítill veikleiki við þær að fólk er að mótmæla ólíkum hlutum. Það er mikil reiði, en það vantar markmið sem sameina.
Annars eru Íslendingar ekki einir á báti: Ég las á erlendum vef í morgun að það hefðu verið ólga og mótmæli í tuttugu og fimm löndum undanfarið vegna slæms efnahagsástands.