Það er oft talað um það þegar upp koma brotamál að smáseiðin séu tekin en að stóru fiskarnir sleppi.
Eftir hrunið á Íslandi virðist vera möguleiki á að svo verði ekki. Sérstakur saksóknari er að rannsaka fjármálamennina sem fóru um ránshendi. Það getur jafnvel verið að einhverjir þeirra lendi í fangelsi.
Og svo eru það stjórnmálamennirnir. Stærsta fiskinum þar, sjálfum forsætirsráðherranum, verður stillt upp fyrir dóm. Það mál gæti orðið stór lexía í pólitískri ábyrgð.
En þá ber svo undir að reynt er að gera stóra fiskinn að píslarvotti. Staða hans framkallar ógurlega meðvirkni. Hennar verður yfirleitt ekki vart þegar litlir fiskar þurfa að standa reikningsskil gerða sinna.
Og svo má spyrja: Eru allir búnir að gleyma hinni marglofuðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem sagði þjóðinni frá ógurlegum afglöpum og vanrækslu – sem rannsóknarnefndin taldi að varðaði við lög?
Það má kannski minna á að nefndin var skipuð umboðsmanni Alþingis, hæstaréttardómara og virtum hagfræðingi við Harvard-háskóla.