Það má ýmislegt segja um Jóhönnu Sigurðardóttur. Ríkisstjórn hennar hafa verið mjög mislagðar hendur. Hún hefur farið frá því að vera sá íslenskur stjórnmálamaður sem naut mests trausts – stuttu eftir hrunið – yfir í að vera frekar óvinsæll forsætisráðherra. Maður hefur grun um að hún hafi lélega ráðgjafa. Stjórn hennar lafir af því það virðist ekki önnur ríkisstjórn vera í spilunum, vegna þess að stjórnmálamenn eru hræddir við kosningar og kannski vegna þess að ríkisstjórnin fer að koma sér upp eins konar ónæmi gagnvart vandræðamálum sem fella ríkisstjórnir.
En Jóhanna ber ekki ábyrgð á hruni íslenska hagkerfisins. Þegar hrunkvöðullinn ritstjóri Morgunblaðsins, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, talar um að ákæra hefði átt Jóhönnu vegna hrunsins – þá ber það vott um vægast sagt öfugsnúið siðferði.
Því miður er verið að draga umræðuna á Íslandi niður í öngstræti – þar eru gerðar ýmsar tilraunir til að kyrkja hana.