Jónína Rós Guðmundsdóttir þingmaður segir að þurfi að koma á laggirnar nýju kerfi húsnæðislána. Það er mikið til í því.
En það er eitt orð í þessu sem heyrist ekki oft – séreignastefnan.
Þetta hefur verið ríkjandi stefna í húsnæðismálum á Íslandi, bæði í stjórnmálunum og í verkalýðshreyfingunni.
Gengur út á að allir eigi að eignast sitt eigið húsnæði – það er nánast eins konar manndómspróf á Íslandi.
Það hefur verið litið niður á leigumarkaðinn og þá sem búa í leiguhúsnæði.
En nú lítur maður í kringum sig og sér að þeir sem bjuggu í leiguhúsnæði á árum húsnæðisbólunnar voru í raun heppnir. Þeir steyptu sér ekki út í húsnæðisskuldir sem fylgja þeim alla ævi – og eru ekki í eignum sem kunna að vera illseljanlegar.
Í Evrópulöndum, sérstaklega í Þýskalandi og Skandinavíu, er virkur leigumarkaður. Það eru til ýmis leiguform – en fólk hefur þennan valkost ef kýs að binda sig ekki við eigið húsnæði.