Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri Saga Capital var í viðtali í Silfrinu áðan. Hann var að tala um mikilvæga hluti í endurreisn efnahagslífsins – meðal þess sem hann nefndi var að hér væri til fullt af fjármagni en það væri ekki að nýtast – það væri að „safna mosa“ eins og hann orðaði það. Meðal þess sem Þorvaldur taldi að þyrfti að gera var að:
1. Lækka vexti meira.
2. Afnema tryggingu ríkisins á bankainnlánum.
3. Flýta endurreisn fyrirtækja.
4. Lækka ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða.
5. Afnema verðtryggingu.
6. Minnka bankakerfið.
Eins og kom vel fram í tölum sem Hjálmar Gíslason sýndi í þættinum virðist kreppan ekki ætla að verða eins djúp og óttast var. Hins vegar stefnir í að hún dragist á langinn. Ein ástæða þess er að það vantar fé til fjárfestinga.
Síðan er hitt eins og Hjálmar benti á að þótt kaupmáttur hafi ekki færst nema aftur til þess sem hann var á árabilinu 2002 til 2004, þá tvöfaldaðist skuldabyrðin á stuttu tímabili – fólk hefur semsagt færri krónur en áður til að borga miklu meiri skuldir.
Glærur Hjálmars má sjá með því að smella hér.