Guðræknislegast væri auðvitað að éta engin dýr.
Börn skynja það – á vissum aldri hrýs þeim hugur við að borða litlu sætu dýrin.
Lömbin íslensku hlaupa frjáls úti í haga sinn stutta líftíma. Kjúklingar eru hins vegar aldir í hryllilegum skemmum, hver fugl hefur pláss eins og A-4 blað, vaxtahraðanum er stjórnað sem kallar á sýkingar en þeim er haldið niðri með sýklalyfjum. Grísir eru látnir velta um í eigin skít. Svín eru ekki óþrifalegar skepnur ef þau fá nóg pláss.
Allt er þetta býsna hrollvekjandi – og það er ekki furða að talað er í fullri alvöru um réttindi dýra.
Nú ríkir nokkur úlfúð vegna þess að nokkrum lömbum var slátað með svokallaðri halal-aðferð sem tíðkast meðal múslima. Sambærilegar aðferðir kallast kosher hjá gyðingum.
Kristnir trúmenn rísa upp og finnst þetta alveg ómögulegt. Gunnari í Krossinum finnst algjör óhæfa að fara með bænir til „annarlegra“ guða yfir dýrum.
Það eru þó ekki dýrin sem hann vill vernda fyrir þessum bænalestri – heldur mennina sem síðar koma til með að éta blessaðar skepnurnar.
Ja, hvers virði eru réttindi dýranna?