Danir og Norðmenn hafa bitra reynslu af nasismanum.
Flokkur eins og Þjóðarflokkur Piu Kjærsgaard í Danmörku kemur heldur ekki úr þeim jarðvegi, hann á upptök sín í stjórnmálahreyfingu Mogens Glistrup frá því á áttunda áratugnum. Framfaraflokkurinn norski er sprottinn úr svipuðum jarðvegi. Þetta eru flokkar sem þykjast tala máli litla mannsins, smáborgaranna, þeir eru á móti háum sköttum og að vissu leyti „kerfinu“. Innflytjendamál hafa blandast þarna inn í seinni tíð.
Í Frakklandi er þetta kallað poujadismi, eftir stjórnmálahreyfingu sem smákaupmaðurinn Pierre Poujade stofnaði á sjötta áratugnum.
Svíþjóðardemókratarnir spretta úr dálítið öðrum jarðvegi. Svíþjóð var hlutlaus í stríðinu, en Þjóðverjar höfðu þar greiðan aðgang. Nasistar og fasistar fengu að vera þar óáreittir. Það er að nokkru leyti jarðvegur Svíþjóðardemókratanna. Um hann má lesa í bókum Stiegs Larson.