Nú er loks komin nýr bandarískur sendiherra til Íslands. Hann heitir Luis E. Arrega-Rodas og er atvinnudiplómati.
Í eina tíð tíðkaðist að senda hingað alls konar furðufugla sem höfðu gefið fé í kosningasjóði og fengu í þakkarskyni að vera sendiherrar í útlendu landi í nokkur ár.
Einn þeirra var Replogle sem fór í göngur í kringum Tjörnina á kvöldin, og fannst vanta eitthvað. Hann ákvað síðar að gefa borgarbúum gosbrunn sem skyldi vera í miðri Tjörninni. Afleiðingin varð mikil ólykt og svo breyttist grasflöt við austurenda Tjarnarinnar í mýri.
Síðar var hér maður sem hét Marshall Brement. Hann varð mjög vinsæll meðal menntafólks í Reykjavík, hélt góðar veislur, en mörgum varðbergsmanninum þótti nóg um þegar reiðhjól Árna Bergmann var farið að standa á kvöldin fyrir utan bandaríska sendiráðið.
Svo var það uppákoman með Carol Van Voorst, síðasta sendiherra Bandaríkjanna. Það átti að afhenda henni orðu á Bessastöðum. Hún var að fara út á flugvöll og ætlaði að taka við orðunni á leiðinni út.
Stuttu áður en hún er komin á Bessastaði berst símtal þar sem segir að hún fái enga orðu.
Þetta var mikil móðgun, ekki síst vegna þess að í bandarísku utanríkisþjónustunni gilda strangar reglur um þá sem þiggja slíkar orður frá erlendum ríkjum. Yfirleitt er það ekki gert – og hafði Van Voorst orðið að afla sérstaks leyfis frá Washington til að fá að taka við orðunni.
Ekki hefur verið skýrt nákvæmlega frá því hvers vegna Van Voorst var sæmd orðunni og svipt henni jafnóðum, en ein kenningin er sú að Ólafur Ragnar hafi verið illur yfir því að hann og Dorrit fengju ekki nógu góðar viðtökur í Bandaríkjunum.