Vilhjámur Þorsteinsson skrifar um nauðsyn þess að ráðherrar hafi vit á málaflokknum sem þeir gegna, en á því hefur verið nokkur misbrestur:
„Í umræðu dagsins um Landsdóm rifjast upp hvað getur gerst, og gerist, þegar dýralæknar verða fjármálaráðherrar og sagnfræðingar viðskiptaráðherrar (aftur með fullri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum sem þau embætti skipuðu). Vandinn er ekki beinlínis þeirra heldur kerfisins sem ýtti þeim upp í stöður sem þeir réðu ekki við, sbr. Peters-lögmálið.
Sjáum til dæmis þennan útdrátt úr bréfi Björgvins G. Sigurðssonar til þingmannanefndar um ráðherraábyrgð:
Það er engum greiði gerður, hvorki tilvonandi ráðherrum né þjóðinni, með því fyrirkomulagi sem hér hefur viðgengist. Á því verður að gera róttækar endurbætur og breytingar.“
— — —
Vilhjálmur leggur til að miklar breytingar verði gerðar á stjórnskipuninni, meðal annars með því að forsætisráðherra verði kosinn beinni kosningu. Vilhjálmur starfaði í Bandalagi jafnaðarmanna í eina tíð og þessar hugmyndir eru í anda Vilmundar Gylfasonar:
„Forsætisráðherra á helst að kjósa beinni kosningu. Hún eða hann velur ráðuneyti sitt, gjarnan fyrir kosningar. Þingmenn geta ekki jafnframt verið ráðherrar. Ráðuneyti eru þá skipuð fólki með fagþekkingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum. Þetta er svipað því sem tíðkast í Frakklandi og Bandaríkjunum.
Samhliða þarf að breyta störfum þingsins og gera það mun öflugra og sjálfstæðara sem stefnumótandi vettvang pólitískrar rökræðu. Þingið á, með lagasetningu og ályktunum sínum, að setja ríkisstjórninni ramma og stefnu hverju sinni. Jafnframt á það að hafa gott eftirlit með framkvæmdavaldinu og stjórnsýslunni. Það má hugsa sér að til verði sérstakur stjórnsýsludómstóll að franskri fyrirmynd; embætti Umboðsmanns Alþingis er vísir að þessu en þyrfti að efla og gefa aukna vigt.
Í þessa átt eigum við að breyta stjórnarskránni í kjölfar stjórnlagaþingsins næsta vor. Þessi kerfisbreyting ein og sér myndi gjörbreyta framtíðarhorfum á okkar ágæta landi til hins betra.“