Það er merkilegt að sjá hvað þarf mikla orkuöflun til að knýja eitt stykki álver – í þessu tilviki álverið í Helguvík. Þetta er ekkert smáræði.
RÚV var með frétt um þetta í gær. Sú orka sem Landsvirkjun, Orkuveitan og HS Orka geta lagt fram dugir ekki. Og þessi fyrirtæki geta ekki ráðist í framkvæmdirnar sem þarf til að tryggja næga raforku. Þau hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess – eða lánstraust.
Nú spyrst út að Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, sé ekki hlynntur því að virkja ofan í álver. Hann telur hagkvæmara að selja orkuna í minni skömmtum og fá þannig meiri arð af henni. Það er talað um „græna orku“ í þessu sambandi.
Stefna orkufyrirtækja á Íslandi sem eru í opinberri eigu hefur verið þveröfug – þar hafa stjórnmálamenn ráðið ferðinni og virkjað án afláts fyrir stóriðjuna.