Ég man að það var Bjarni Ármansson sem fór einna fyrstur fyrstur að tala um að íslenskt samfélag yrði fullt af fólki sem myndi eiga ofboðslega mikið af peningum. Ég man að hann ræddi um það rétt fyrir aldamótin 2000 að hér myndi allt úa og grúa af fólki sem ætti meira en 200 milljón krónur. Það þótti mjög há upphæð á þeim tíma.
Svo gekk þetta eftir, að minnsta kosti um tíma, það var rétt hjá Bjarna að upp var að rísa stétt manna sem græddi á tá og fingri – þetta var aðallega fólk sem tengdist bönkunum, hlutabréfamarkaðnum eða átti kvóta.
Flestir aðrir stóðu um það bil í stað. Eða réttar sagt, þeir tóku íslenska lagið á þetta, unnu mikið og steyptu sér í skuldir. Þeir vildu ekki vera eftirbátar hinna tekjuháu í neyslunni. Hin gamalgróna hugmynd um Ísland þar sem ríkir jöfnuður fór út um gluggann.
En gróðærið mikla byggðist á fölskum forsendum – og það var tekið að láni. Í nýjasta tölublaði Vísbendingar er grein þar sem segir að landsframleiðsla á mann hafi vaxið mjög lítið á Íslandi síðustu tuttugu árin.
En sumir lifa eins og ekkert hafi gerst. Í þeim hópi eru skilanefndir bankanna, en í kringum þær er að spretta upp ný yfirstétt í landinu. Upphæðirnar sem eru að fara til skilanefndanna eru svo háar að mann sundlar. Samt þarf enginn að segja mér að þetta séu menn sem eru algjörlega ómissandi eða engir geti komið í þeirra stað. Upp til hópa virðast þetta vera hefðbundnir lögfræðingar sem hafa komist að því að það er hægt að mjólka fallið bankakerfið án þess að neinn skerist í leikinn. Annað orð yfir þetta er sjálftaka.