Eitt af því sem lesa má úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er að stjórnsýslan hafi verið í molum á Íslandi. Það kemur líka fram að eftirlitsstofnanir hafi brugðist rækilega.
Einn viðmælandi hjá mér í Silfri Egils í fyrra orðaði það sem svo að það þyrfti að setja skilanefnd yfir stjórnsýsluna.
Einn veikleikinn er að við búum við smákóngaveldi þar sem allir eru að passa upp á sinn hlut – hitt er að það er alltof náið samband milli stjórnsýslunnar og hagsmunaaðila, stundum er erfitt að sjá hvað er hvað.
Jónas Kristjánsson skrifar á vef sinn:
„Viðræður Íslands við Evrópusambandið eru góðar, þótt þær leiði ekki til aðildar. Heilmikil vinna verður lögð í að finna mun á regluverki siðaðra þjóða og óhæfra ráðuneyta á Íslandi. Vonandi verður sitthvað bætt og aukið í okkar skitna regluverki. Okkur vantar evrópska festu í stjórnsýslu, aðild að aldagamalli hefð skrifræðisstefnu meginlandsríkjanna. Við þurfum einmitt það, sem íslenzkir þjóðrembingar vilja forðast: Aðild að evrópskri skynsemi menningarþjóða. Því miður erum við svo heimsk, að við munum fella aðildina. Fáum samt fínt tækifæri til að átta okkur á, að við sitjum í eigin öskustó.“
Við þurfum að ganga í gegnum ýmsa hluti þótt ekki komi til aðildar að ESB. Við þurfum til dæmis að koma efnahagsmálunum í það horf að þau uppfylli Maastricht-skilyrðin um fjárlagahalla, verðbólgu og vexti, alveg burtséð frá því hvort við göngum í ESB eða ekki. Og eins er það með stjórnsýsluna, hún þarf sína yfirhalningu eftir að hafa í raun orðið gjaldþrota í hruninu.
Það er mikið talað um aðlögunarferli að ESB. Á það má benda að Ísland er í stöðugri aðlögun að Evrópusambandinu. Í gegnum EES tökum við linnulaust við lögum og reglum frá ESB. Oftast eru engar umræður um þessar reglur. Stundum verður reyndar smá hvellur eins og þegar landbúnaðarráðherra þáverandi, Einar Kr. Guðfinnsson, vildi láta staðfesta aðlögun íslensks landbúnaðar að heilbrigðisreglum ESB.
Aðlögunin hefur staðið yfir í meira en 15 ár, frá því EES samningurinn tók gildi. Í honum skuldbinda Íslendingar sig til að taka upp öll lög og reglur er varða innri markað ESB. Túlkunin hvað tengist markaðsmálum er mjög rúm. Við höfum engin formleg réttindi til að hafa áhrif á lagasetningu innan ESB, getum einungis „lobbýerað“ með því að reyna að hafa okkar fólk utan í stofnunum sambandsins. Eins og vitað er hefur verið talsverður misbrestur á því.
Rökréttasta afstaðan fyrir þá sem kvarta undan aðlögunarferli væri í raun að hvetja til þess að Íslendingar segi sig frá EES samningnum. Annars virkar þetta býsna mótsagnakennt. Því með EES heldur aðlögunin bara áfram – og við höfum lítið sem ekkert um hana að segja.