Páll Vilhjálmsson er framkvæmdastjóri Heimssýnar, samtaka þeirra sem eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Þetta eru öflug samtök og það er eðlilegt, það eru deildar meiningar um málið og sjálfsagt að sé tekist á um það í gegnum skipulagðar hreyfingar. Í öðrum löndum þar sem aðildarumsókn hefur verið til umræðu hafa verið starfandi félög á svipuðum nótum, félög þeirra sem eru með eða á móti. Norska nei-hreyfingin var til dæmis mjög sterk og starfar að mér skilst áfram.
Páll á það hins vegar til að ganga nokkuð langt í málflutningi sínum. Í dag skrifar hann í pistli á vefsíðu sinni að umsókn Íslands að ESB sé „landráð“.
Það er stórt orð. Við landráðum liggja þungar fangelsisrefsingar. Þetta er ekki orð sem á að hafa í flimtingum.
Og mér þykir heldur ólíklegt að forystumenn helstu nei-hreyfinga í nágrannalöndum okkar – sem öll hafa farið í gegnum aðildarferli – hafi mikið verið að nota það.