Það er ýmislegt sem lögregla getur þurft að rannsaka – alþjóðlegir glæpahringir, vélhjólagengi, fíkniefnaviðskipti, peningaþvætti, mansal og – guð forði okkur – hryðjuverkastarfsemi.
Þetta er allavega það sem lögregla í nágrannalöndum okkar þarf að glíma við. Ég er mjög lítið hrifinn af því að lögreglan fari í einhvern stórborgarleik – því þótt við eigum glæpahöfunda á heimsmælikvarða höfum við yfirleitt ekki glæpi á heimsmælikvarða.
Allt ofannefnt þekkist samt á Íslandi – nema hryðjuverkin. Við erum samt svo vel búin undir að afstýra þeim að það er leitað á farþegum sem koma úr flugi frá stöðum sem eru utan Evrópu!
Það er semsagt talin hætta á því að maður fari með sprengjuna sem maður kom með í Ameríkufluginu í aðra vél og sprengi hana í loft upp – eða að maður fari með sprengjuna heim til sín og sprengi sig þar upp.
Þetta kallar maður fyrirbyggjandi löggæslu.
En sama samt: Það getur ekki verið svo ýkja slæmt að lögregla hafi auknar rannsóknarheimildir til að fylgjast með glæpastarfsemi af þessu tagi.
Ég held ekki að neinn ætli að fara að setja upp lögregluríki á Íslandi, hvað þá að koma á fasisma. Ég hef enga trú á að almenningur sem kemur í mótmælaaðgerðir þurfi að hafa áhyggjur af þessu. En einhver fer að stunda hér peningaþvætti eða mansal, stofna glæpahring, eða ætlar jafnvel að sprengja upp Alþingishúsið – þá er gott að hafa einhvern pata af því eins fljótt og auðið er.
Vinstri grænir eru svolítið æstir af þessu tilefni. Það er greinilegt að utanþingsráðherrarnir fara mjög í taugarnar á þeim núorðið. Þeir segjast vilja nota aðrar aðferðir til að ná utan um glæpastarfsemi af þessum toga – það er þá spurning í hverju þær felast.