Það er mikið kvartað undan hækkuðu áfengisverði, meðal annars í leiðara Fréttablaðsins í dag. Hann er nánast eins og grátbólgið ákall vegna þessa óréttlætis.
Fréttir hafa verið birtar bæði í blöðum og ljósvakamiðlum síðustu daga sem fjalla um þetta og alltaf á sama hátt – það er rætt við menn sem finnst óskaplega vont að áfengi skuli vera dýrt.
Þá hefur verið staðhæft að smygl færist mjög í aukana og líka heimabrugg. Má vera að sé einhver aukning í því. Smyglleiðirnar eru hins vegar ekki margar og auðvelt að hafa eftirlit með þeim – og þeir sem hafa reynslu af áfengisneyslu vita að heimabrugg er í flestum tilvikum mjög óburðugt.
Staðreyndin virðist hins vegar vera sú að áfengisneysla hefur minnkað – og það ber ekki að lasta. Áfengisbölið leikur samfélagið miklu verr en fíkniefnin sem alltaf er verið að fárast yfir. Áfengisfíkn er margfalt útbreiddari en önnur eiturfíkn. Við lifum líka í samfélagi sem er fullt af hræsni. Það er búið að gera tóbak útlægt af veitingahúsum og samkomustöðum, það má varla minnast á tóbak í fjölmiðlum, en á sama tíma þykir sjálfsagt að hafa áfengi hvarvetna á boðstólum og bjóða upp á umfjöllun um áfengi í fjölmiðlun – sem er nánast í tilbeiðslustíl.
Það er kallað áfengisdýrkun – og er nokkurs konar blæti.
Í Bretlandi – en það er samfélag sem er gegnsýrt af óhóflegri áfengisdrykkju – eru stjórnvöld að komast að þeirri niðurstöðu að áfengi þurfi að hækka verulega. Það er ekki stætt á öðru, ekki bara vegna þess að þetta er heilsufarsvá, heldur líka vegna ofbeldisins sem grasserar og tengist oftast áfengisdrykkju.
Ég var í Rússlandi í sumar. Talaði við Rússa sem gátu ekki nógsamlega lýst því hvílíkur dásemdardrykkur vodkað væri. Það væri nóg að innbyrða þennan drykk – manni yrði aldrei misdægurt. Það er passað upp á það í Rússlandi að vodkað og sígaretturnar séu ódýrar, þetta er ein aðferðin við að halda langkúgaðri alþýðu niðri. (Það má kannski minna á að bindindishugsjónin var mjög rík í hreyfingum sósíalista og sósíaldemókrata áður fyrr.)
Svo setjast Rússarnir að drykkju, fyrr en varir eru þeir orðnir útúrfullir. Þeir þykjast samt vera sannfærðir um að þetta sé hollt – þrátt fyrir að alkóhólismi sé þjóðarmein, göturnar séu fullar af fólki sem er líkt og holað að innan af áfengisneyslu og meðalaldur sé þarna miklu lægri en eðlilegt má telja, ekki síst vegna drykkjunnar.