Þegar ég var í London um daginn keypti ég bókina Alone in Berlin eftir Hans Fallada, hún heitir á frummálinu Jeder stirbt für sich alein.
Nú les ég að bókin sé orðin metsölubók í Bretlandi.
Það á sér þá einföldu skýringu að markaðssetning hennar er fjarska góð: Kápan er falleg og það er látið eins og Fallada sé stórkostleg bókmenntauppgötvun. Hún er líka gefin út af öflugu forlagi, sjálfu Penguin. Hvarvetna var henni stillt upp í glugga bókabúða, til dæmis í Daunt Books á Marylebone High Street – fallegustu bókabúð í London og þó víðar sé leitað.
Fallada er kannski uppgötvun í hinum enskumælandi heimi, en ekki í Þýskalandi.
Ég man fyrst eftir Fallada þegar ég var unglingur, þá sýndi sjónvarpið þáttaröð eftir frægustu bók hans, Kleiner Mann, was nun? (Litli maður, hvað nú?). Bókin lýsir basli ungra hjóna á kreppuárunum, í lok Weimarlýðveldisins. Eftir það náði ég mér í bókina í velktri útgáfu á fornsölu og las hana.
Fallada átti sérkennilega ævi. Hann lenti í því ungur maður að drepa vin sinn í einvígi – í rauninni var þetta eins konar misheppnaður sjálfsmorðssamningur. Fyrir vikið datt Fallada út úr borgarastéttinni sem hann kom úr, hann vann ýmis störf – og ánetjaðist eiturlyfjum og áfengi sem átti eftir að vera honum til bölvunar alla ævi.
Í rauninni hét Fallada Rudolf Ditzen, en skáldanöfnin sín, Hans og Fallada, tók hann upp úr tveimur sögum úr Grimmsævintýrum
Hann sló rækilega í gegn með Kleiner mann, was nun?, efnaðist mjög vel – bókin var meðal annars gefin út af Book of the Month-klúbbnum í Ameríku. Hann þraukaði nasistaárin í Þýskalandi, þótt hann hafi tíma ætlað að flýja land, skrifaði meðal annars bókina Wolf unter Wölfen (Úlfur meðal úlfa) árið 1937. Hún féll nasistum ágætlega í geð, enda var í henni nöturleg lýsing á Weimar-lýðveldinu.
Í lok stríðsins var Fallada orðinn illa farinn af áfengi og morfínneyslu. Hann var lagður inn á geðsjúkrahús 1944; það er sagt að á þeim tíma hafi Göbbels beitt Fallada miklum þrýstingi að skrifa skáldsögu sem væri beint gegn gyðingum. Á hælinu skrifaði Fallada bókina Der Trinker (Drykkjumaðurinn), sjálfsævisögulegt verk sem lýsir lífi hans á tíma nasismans. Bókin var ekki gefin út fyrr en 1950, eftir dauða Fallada, enda hefði verið óhugsandi að birta hana í Þriðja ríkinu.
Fallada skrifar raunsæislegan stíl, og sjónarhornið er yfirleitt litla fólkið; fólkið sem hefur ekki völd eða peninga eða vörn gegn ofríki. Þetta einkennir líka Jeder stirbt für sich allein. Hún bregður upp mynd af íbúum fjölbýlishúss í Berlín snemma í stríðinu. Þarna eru nasistar, gömul gyðingakona, alls kyns lausafólk – og svo aðalhetjur sögunnar, gömul hjón sem missa son sinn og fara að dreifa áróðursmiðum gegn stjórn nasista. Saga þeirra er byggð á raunverulegum atburðum, ævi hjónanna Otto og Elise Hempel sem voru handtekin af Gestapo og tekin af lífi af nasistum.
Bókina skrifaði Fallada á stuttum tíma skömmu fyrir dauða sinn, hún kom út eftir að hann dó. Og nú er hún semsagt óvænt metsölubók í Bretlandi.