Það er rætt um kostnað við prófkjör og auglýsingar.
Þeir sem þekkja til segja mér að lang dýrasti liðurinn í stóru prófkjörunum sé símkostnaður, útgjöld vegna úthringinga – þá hefur til dæmis verið hringt í alla sem eru á skrá hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Það eru hátt í tuttugu þúsund manns.
Kostnaðurinn við að hringja í allt þetta fólk og spjalla er mikill, enda hefur jafnvel verið tíðkað að hafa fólk á launum við það.
Um þetta var fjallað í frétt í DV í janúar. Þar kom í fram að Júlíus Vífill Ingvarsson hefði fyrir prófkjör nú í vetur látið hringja í alla kosningabæra sjálfstæðismenn í borginni, en aðrir frambjóðendur hefðu ekki gert þetta. Þeir hefðu jafnvel talið þetta vera brot á reglum um prófkjörið, enda var kveðið á um að kostnaður við það skyldi ekki vera meiri en ein og hálf milljón á frambjóðanda.