Eitt af einkennum íslensks samfélags er að það er gegnsýrt af pólitík. Hér er ekki spurt um hæfni eða getu eða menntun, heldur hvar menn standa í pólitík. Og þá er ekki verið að spyrja um lífsskoðanir, heldur hvar sé hægt að staðsetja menn í hinu þrönga, loftlausa og hugmyndasnauða íslenska flokkakerfi.
Embættismannakerfið er gegnsýrt af þessu. Rannsóknir Gunnars Helga Kristinssonar prófessors sýna að fimmtíu prósent embættisráðninga eru af pólitískum toga.
Það er til dæmis athyglisvert með viðtal sem ég tók við breska blaðamanninn og rithöfundinn Roger Boyes. Eftir viðtalið fóru strax einhverjir að gagga að hann sé vinstri maður – hann vinnur náttúrlega fyrir hið þekkta vinstra blað The Times í London.
Ég hafði aldrei hitt Boyes fyrr en á fimmtudaginn né talað við hann, en einhvern veginn kom hann mér fyrir sjónir sem menntaður Breti sem ég teldi frekar líklegt að gæti kosið Íhaldsflokkinn. Eða kannski Verkamannaflokkinn þegar Blair var ungur og ferskur. Ef hann kysi þá yfirleitt. Að minnsta kosti varaði hann okkur Íslendinga við að feta slóð norrænna samfélaga sem hann sagði að væru „leiðinleg“.
Ein meginkenning Boyes er sú að ef farið er út í víðtæka einkavæðingu eins og hér þá útheimti það sterkt ríkisvald sem er vel á verði. Það telur hann að hafi brugðist, því samhliða einkavæðingunni hafi ríkið orðið veiklaðra.