fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Elva Dögg var alltaf glöð sem barn: „Síðan gerðist eitthvað sem ég gat ekki útskýrt“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 4. október 2019 08:30

Elva Dögg Sigurðardóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í október eru tíu ár liðin síðan Elva Dögg Sigurðardóttir var fyrst lögð inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þá var hún fjórtán ára og fyrir þann tíma hafði lífið leikið við hana.

„Þegar ég var í grunnskóla var ég í toppmálum, var alltaf glöð, alltaf með nóg fyrir stafni, stóð mig afar vel í skólanum og í íþróttinni sem ég æfði, ég átti góða fjölskyldu og frábæra vini. Ég fékk hrós og hvatningu úr öllum áttum. Ég hafði allt sem ég vildi og miklu meira en það,“ segir Elva Dögg.

„Síðan gerðist eitthvað sem ég gat ekki útskýrt. Mér fór að líða hræðilega illa en samt hafði ekkert komið upp á, ég hafði ekki lent í neinum áföllum sem gátu útskýrt þessa vanlíðan. Það var bara eins og það hefði gjörsamlega verið skrúfað fyrir gleðina hjá mér. Hvernig gat mér liðið svona þegar mér gekk svona vel og vanhagaði ekki um eitt né neitt? Það var nefnilega það sem ég skildi ekki,“ segir Elva Dögg.

Í dag er Elva Dögg þjálfari hjá KVAN. Hún hefur ákveðið að stíga fram og segja sögu sína um tíma sinn á BUGL, skömmina sem því fylgdi, sigurinn að komast upp úr myrkrinu og afleiðingar þess að kljást við óraunhæfar kröfur.

Tíu ár liðin

„Núna í október eru liðin tíu ár frá því að ég var fyrst lögð inn á BUGL, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Ég var fjórtán ára og búin með alla þá orku sem ég átti til, mætti ekki í skólann, fór ekki fram úr rúminu og sinnti varla mínum grunnþörfum. Ég vildi ekki tala við neinn og það mátti enginn tala við mig, mér fannst enginn geta hjálpað mér og ég vildi heldur enga hjálp. Eina stundina grét ég hástöfum og þá næstu var ég alveg fokreið, stundum skalf ég öll og stundum gat ég ekki talað. Ég var algjörlega búin á því, ég vissi ekkert hvað var að koma fyrir mig. Það eina sem ég vissi var að mig langaði ekki lengur að lifa og það yrði allt betra ef ég tæki ekki lengur þátt í þessu lífi,“ segir Elva Dögg og heldur áfram.

„Ég fann fyrir svo ótrúlega mikilli skömm og sektarkennd fyrir að líða svona illa, ég hafði ekki hugmynd um af hverju mér leið svona, mér sem gekk svo vel í öllu, allt þetta frábæra fólk í kringum mig og þetta frábæra líf framundan með öllum spennandi tækifærunum. Mér átti ekki að geta liðið svona og ég skammaðist mín fyrir það. Mér fannst fylgja því mikil skömm að vera greind með kvíða og þunglyndi og ég hélt að það myndi hafa neikvæð áhrif á allt líf mitt. Þegar ég fór inn á BUGL var ég staðráðin í því að koma aldrei þaðan út lifandi, skömmin var svo mikil. Mér fannst ég vera að taka pláss frá krökkum sem þurftu miklu frekar á hjálp að halda, mér fannst ég vera ótrúlega vanþakklát fyrir að líða illa, mér átti að líða vel.“

Þar sem hundurinn er grafinn

„En það er einmitt þarna sem hundurinn er grafinn. Þegar maður skarar fram úr, er toppnemandi og íþróttamanneskja sem leggur sig meira en 100% fram í öllu, þá fer í það mikil orka. Þegar maður ritskoðar sjálfan sig og allt sem maður gerir til þess að sjá hvar maður getur bætt sig, er maður oft hrikalega óvæginn. Það er nefnilega svo margt sem maður getur brotið sig niður fyrir þegar maður vill gera allt fullkomlega,“ segir hún og bætir við.

„Þegar maður skarar fram úr þá býr það ósjálfrátt til kröfur, bæði frá samfélaginu og manni sjálfum. Maður ætlast til  þess að gera vel og fólk býst við því að maður standi sig framúrskarandi vel. Manni má ekki mistakast, það verður allt að vera í toppstandi, alltaf, alla daga og það er ekki í boði að gera mistök. Þá kemur líka að því að maður brennur út, að orkan klárist og maður klessi á vegg.“

Lítið talað um þunglyndi og kvíða

„Árið 2009 og í nokkur ár á eftir gerði ég mér enga grein fyrir þessu sem ég hef nefnt hér að ofan og ég held að fólkið í kring hafi að mörgu leyti ekki gert það heldur. Það töluðu fáir um kvíða eða þunglyndi eða fullkomnunaráráttu, það talaði enginn um kulnun í starfi, hvað þá að börn væru undir of miklu álagi,“ segir Elva Dögg.

„Við lifum í svakalega hröðu og kröfuhörðu samfélagi þar sem mikils er krafist af okkur öllum, hvort sem við erum börn eða fullorðin. Þess vegna er svo mikilvægt að við setjum börnunum okkar raunhæfar kröfur, hjálpum þeim að læra að gera mistök, takast á við mótlæti og kynnast því hvaða styrkleikum þau búa yfir. Það er svo mikilvægt að börn fái að vera eins og þau eru, að þau upplifi sig ekki einungis metin fyrir afrek sín heldur frekar fyrir hvaða manneskju þau hafa að geyma.“

Að lokum spyr Elva Dögg:

„Í dag erum við svo ótrúlega fróð um margt sem tengist andlegri heilsu, við verðum að muna að nýta okkur þessa þekkingu. Það er svo margt sem hægt er að gera og afreka í lífinu en hver er eiginlega tilgangurinn með öllum þessum afrekum ef við njótum ekki einu sinni þess sem við erum að gera?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 klukkutímum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Stjarna United frumsýndi nýja kærustu – Vann áður á McDonald’s

Stjarna United frumsýndi nýja kærustu – Vann áður á McDonald’s
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Skólapiltur reyndi að berja sofandi samnemendur sína með hamri þegar þeir sváfu – Var að vernda sig gegn uppvakningaheimsendi

Skólapiltur reyndi að berja sofandi samnemendur sína með hamri þegar þeir sváfu – Var að vernda sig gegn uppvakningaheimsendi
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Betri en bæði Lampard og Gerrard – ,,Númer eitt fyrir mér“

Betri en bæði Lampard og Gerrard – ,,Númer eitt fyrir mér“
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Chelsea væri í fallsæti án Palmer

Chelsea væri í fallsæti án Palmer

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.