Hnífstunguárásin á Kjalarnesi á gamlárskvöld átti sér stað í einbýlishúsi að Tindum, lítilli byggð í landi Móa á Kjalarnesi. Ranglega hefur verið greint frá því í einhverjum fjölmiðlum að atvikið hafi átt sér stað á gistiheimili á svæðinu.
Mennirnir sem í hlut áttu eru flestir Pólverjar og eru á fimmtugsaldri. Bjuggu þeir saman í einbýlishúsi að Tindum. Mennirnir starfa við kjúklingabú Matfugls. Það er mál íbúa á svæðinu að þarna hafi samkvæmi farið illilega úr böndunum. Aðkomumenn voru í samkvæminu auk heimilismanna. Einn nágranni sá hinn særða koma út úr húsinu illa til reika og var hann með minnst tvö stungusár. Annar íbúi í hverfinu tilkynnti árásina til lögreglu.
Einn íbúi á Tindum segir í samtali við DV að mennirnir væru vel liðnir, sem og aðrir erlendir starfsmenn Matfugls undanfarin ár. Sumir hafi búið í hverfinu í yfir tvo áratugi og ekkert nema gott af þeim að segja allan þann tíma. En þarna hafi augljóslega komið til harkalegra deilna á gamlárskvöld og soðið upp úr með þessum alvarlegu afleiðingum.
Eins og kom fram í tilkynningu frá lögreglu hefur grunaður árásarmaður verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Árásin var lífshættuleg en gerð var aðgerð á brotaþola á Landspítalanum í morgun. Hann er núna úr lífshættu.