Það var erfiðara að spila á móti Duvan Zapata árið 2019 en stórstjörnum á borð við Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Þetta segir varnarmaðurinn William Troost-Ekong sem hefur spilað gegn mörgum af stærstu nöfnum fótboltans undanfarin ár.
Troost-Ekong gerði garðinn frægan með liðum eins og Udinese og Watford og á þá að baki 76 landsleiki fyrir Nígeríu.
Zapata var frábær framherji upp á sitt besta og horfir Troost-Ekong á hann sem sinn erfiðasta mótherja frekar en Ronaldo og Messi sem voru á þessum tíma að gera mjög góða hluti í Evrópu.
,,Það var einn framherji hjá Atalanta sem heitir Duvan Zabata. Kólumbískur framherji og árið 2019 þá komst ég ekki nálægt honum,“ sagði Troost-Ekong.
,,Hann var alltof sterkur, alltof hraður, alltof meðvitaður og var frábær í að klára sín færi. Hann var mín martröð, minn óvinur.“
,,Ég verð að nefna hann en það eru líka aðrir góðir sóknarmenn sem er hægt að telja upp.“