Það eru fáir knattspyrnumenn á Englandi sem eru jafn óvinsælir og framherjinn Neal Maupay sem leikur með Brentford.
Maupay hefur margoft komist í fréttirnar fyrir árásargjarna hegðun í leikjum en hann er duglegur að gera grín að andstæðingum sínum og reynir að vera eins pirrandi og hann getur.
Á undanförnum vikum hefur Maupay náð að pirra bæði Kyle Walker, leikmann Manchester City, sem og James Maddison, leikmann Tottenham.
Walker var í raun brjálaður út í Frakkann í leik liðanna og þá hermdi Maupay eftir fagni Maddison eftir að hafa skorað mark.
Maupay segist bara vera að skemmta sér á vellinum og viðurkennir að hann geri sitt til að pirra andstæðinginn.
,,Fólk segir að knattspyrnumenn séu hundleiðinlegir, svo allt í einu birtist einhver eins og ég og allir spyrja spurninga,“ sagði Maupay.
,,Þeir spyrja sig: ‘Af hverju Neal? Þetta er hataðasti leikmaður deildarinnar’ – og svo framvegis.“
,,Fótbolti er bara leikur, þetta er skemmtun. Ég er bara að skemmta mér á vellinum og geri allt sem ég get til að vinna mína leiki.“
,,Ef ég get sagt eitthvað til að pirra andstæðinginn eða láta hann ofhugsa hlutina eða gera mistök þá geri ég það.“