Wayne Rooney fyrrum fyrirliði Manchester United er að skoða það að fara í boxhringinn og hefur rætt við fólk um það.
Rooney hefur samkvæmt enskum blöðum fundað með Kalle Sauerland sem sá um að skipuleggja bardaga fyrir áhrifavaldinn, KSI.
Rooney er þekktur áhugamaður um box og hefur reglulega mætt á slíka viðburði.
Hann er hins vegar þekktastur fyrir það að hafa verið rotaður af Phil Bardsley fyrrum samherja sínum. Þeir höfðu fengið sér í glas og fóru að boxa á heimili Rooney.
„Þetta gerðist heima hjá honum, við höfðum horft á fótbolta á sunnudegi og fengið okkur nokkra. Líklega aðeins of marga,“ segir Bardsley.
„En strákar verða alltaf strákar, við enduðum heima hjá honum og fórum að slást. Eitt leiddi af öðru og næstu mínútu er allt í blóði heima hjá honum.“
„Myndband af þessu fór út um allt sem var vandræðalegt því hann var fyrirliði Manchester United og ég hjá Stoke.“
„Það voru allir í glasi þarna.“
Bardsley er til í að slást aftur við Rooney. „Ég væri klár, það færi þá allur ágóði til góðgerðamáls.“