Frá því á föstudag hafa þær skotið fimm Su-34 orustuþotur niður og eina SU-30. Þetta eru fullkomnustu orustuþotur Rússa. Heimildarmenn innan úkraínska hersins og rússneskir herbloggarar skýra frá þessu.
Business Insider segir að þrjár SU-34 hafi verið skotnar niður yfir Kherson á föstudaginn, líklega með Patriot-loftvarnarkerfi en Úkraínumenn hafa fengið slík kerfi frá Vestrænum bandamönnum sínum.
Forbes segir að föstudagurinn hafi verið einn versti dagur rússneska flughersins í hinu 22 mánaða langa stríði. Kyiv Post segir að Rússar hafi nú hert leitina að vopnakerfunum sem skutu flugvélarnar niður.
Rússnesk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið en rússneski herbloggarinn Fighterbomber, sem er með rúmlega 400.000 fylgjendur á Telegram, skýrði frá tjóni Rússa og að líklega hafi úkraínskar loftvarnarsveitir verið að verki.
Á mánudag sagði Kyiv Post, sem og fleiri miðlar, frá því að ein SU-34 vél til viðbótar hafi verið skotin niður nærri Maríupól í Donetsk.
Úkraínski herinn skýrði síðan frá því á mánudaginn að SU-30 vél hafi verið skotin niður yfir Svartahafi.
Þegar tilkynnt var fyrir ári síðan að Vesturlönd ætluðu að senda Úkraínumönnum Patriot-loftvarnarkerfi gerði Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, lítið úr styrk kerfisins og sagði meðal annars: „Móteitur finnst alltaf. Rússland mun eyðileggja Patriot-kerfin,“ sagði hann þá að sögn The Guardian.
Patriot er hannað til að skjóta niður flugvélar, þyrlur og ýmsar tegundir flugskeyta.