Hera Björk hugsar sífellt til barnanna sem hún hitti í Palestínu
„Það snertir mig mjög djúpt. Ég fylltist sorg og hugsa mikið til þeirra, bæði Palestínu- og Ísraelsmegin. Það er svo gríðarlega sorglegt að þetta sé staðan,“ segir Hera Björk Þórhallsdóttir sem heimsótti SOS barnaþorp í bæði Ísrael og Palestínu vorið 2019.
Hera var bókuð til að skemmta á viðburðum í tengslum við Eurovision söngvakeppnina sem þá var haldin í Tel Aviv. Sem velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi vildi Hera nota tækifærið og kynna sér starfið í SOS barnaþorpum beggja vegna landamæranna. Heru finnst eins og flestum öðrum erfitt að fylgjast með ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs.
Hera rifjar upp heimsókn á eitt heimilið í SOS barnaþorpinu í Bethlehem í Palestínu.
„Mamman var yndisleg og tók rosalega vel á móti okkur. Hún hafði misst bæði manninn sinn og barn í stríðsátökum. Hún sagði mér að í staðinn fyrir að gefast upp hafi hún sótt um vinnu hjá SOS Barnaþorpunum og vann sig upp í að verða SOS móðir.“
Bara fólk sem vill lifa lífinu sínu
Það sem Hera segir að standi upp úr eftir heimsóknir sínar til Ísrael og Palestínu er hversu ólík upplifun hennar var miðað við það sem hún hafði verið mötuð af í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.
„Ég var svona utanaðkomandi, mötuð af þessum upplýsingum, Ísrael þetta, Palestína þetta og Hamas hitt. En ég upplifði þetta þannig að þetta er bara fólk eins og ég í gríðarlega erfiðum aðstæðum og allir eru bara að reyna að komast af.