Chelsea er sannfært um að fyrirliði liðsins, Reece James, verði ekki frá í fjóra mánuði eins og enskir miðlar hafa greint frá.
James meiddist enn eina ferðina á dögunum og þurfti á aðgerð að halda og er talið að hann stígi ekki aftur inn á völlinn þar til næsta vor.
Chelsea trúir því þó að meiðslin séu ekki eins alvarleg og í fyrstu var talið og að James verði frá í mögulega tvo mánuði.
Um er að ræða gríðarlega öflugan bakvörð sem hefur meiðst reglulega undanfarna mánuði og virðist ekki ná að halda heilsu.
Chelsea er vongott um að James muni snúa aftur í febrúar sem myndi þýða að leikmaðurinn gæti spilað með enska landsliðinu á EM næsta sumar.