The Athletic fjallar í dag um tilraun Manchester United til að fá Jude Bellingham til félagsins á sínum tíma.
Það var árið 2020 sem Bellingham var afar eftirsóttur 16 ára gamall leikmaður Birmingham. Þá var talið að Dortmund og United leiddu kapphlaupið um miðjumanninn en að lokum fór hann til Dortmund fyrir 25 milljónir punda.
Í mars þetta sama ár reyndi þáverandi stjóri United, Ole Gunnar Solskjær, að sannfæra Bellingham um að koma á Old Trafford og undirbjó veglega kynningu fyrir hann.
Fékk hann svo sjálfan Sir Alex Ferguson til að hitta Bellingham og sannfæra hann enn frekar í heimsókn sinni til Manchester.
Sagt er að Bellingham hafi tekið í höndina á Ferguson en að hann hafi ekki fengið mikinn tíma til að ræða við goðsögina því John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála, greip inn í til að sýna Bellingham aðstæður hjá United.
Við þetta brjálaðist Ferguson og lét Murtough síðar heyra það. Sá síðarnefndi neitar þó fyrir atvikið.
Sem fyrr segir fór Bellingham til Dortmund og sló í gegn. Í sumar var hann seldur til Real Madrid og hefur verið besti leikmaður liðsins það sem af er leiktíð.