Oleksandr Sjtupun, talsmaður úkraínska hersins, sagði á miðvikudaginn að frá 10. október hafi Rússar látið mjög að sér kveða og náð að sækja fram um hálfan annan til tvo kílómetra á sumum stöðum.
„En þetta er þeim dýrkeypt,“ sagði hann um sókn Rússa, sérstaklega í Avdiivka sem er nærri borginni Donetsk. Þar á hann við um mannfall Rússa en það er sagt vera gríðarlega mikið.
Hann viðurkennir að Rússar hafi yfirburði þegar kemur að fjölda hermanna.
Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir að Rússar hafi sent mikinn fjölda hermanna og brynvarinna ökutækja til svæðisins.
Hið mikla mannfall Rússa hefur heldur ekki farið framhjá hugveitunni og mörgum öðrum.
ISW segir að Rússar hafi náð að sækja fram og eigi Úkraínumenn í vök að verjast í Avdiivka.