Pútín sagði meðal annars að markmið Rússa með innrásinni í Úkraínu séu óbreytt og að friður komist ekki á í Úkraínu fyrr en þessi markmið nást.
Hann sagði að markmiðin séu enn að „afnasistavæða Úkraínu sem og að afvopna landið og gera það hlutlaust“.
„Friður næst þegar við náum markmiðum okkar,“ sagði hann.
Rússar vilja koma í veg fyrir að Úkraína gangi í NATO því ef landið fær aðild að NATO þýðir það að Vesturlönd verða að koma landinu til aðstoðar ef á það er ráðist.
Hvað varðar umfang hernaðaraðgerðanna í Úkraínu sagði hann að þar séu nú 617.000 hermenn, þar á meðal 244.000 varaliðsmenn, sem berjast á 2.000 km langri víglínu. Hann sagði að ekki sé nauðsynlegt að grípa til herkvaðningar því 1.500 karlar gangi til liðs við herinn daglega.
Hvað varðar gagnsókn Úkraínu á árinu sagði hann að hún „hefði mistekist á öllum vígstöðvum“. Úkraínskir ráðamenn hafa játað að sóknin hafi ekki skilað tilætluðum árangri og að aðeins hafi náðst lítils háttar ávinningur nærri Kherson.