Elvanse hefur verið talsvert í umræðunni hér á landi en mikill skortur hefur verið á lyfinu síðustu vikur. Lyfið hefur gefið góða raun við meðhöndlun á ADHD en ýmsir hafa bent á að mögulega séu of margir á lyfinu hér á landi. Til dæmis Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands, sem sagði í samtali við Morgunblaðið í nóvember.
„Það er verið að setja fólk beint á þetta lyf, sem stríðir algerlega gegn verklagsreglum Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Þetta lyf er amfetamínafleiða, eins nálægt amfetamíni og ADHD-lyf verða.“
Í grein sinni segir Stefán að Elvanse búi yfir ótvíræðum kostum og hafi gefið góða raun í skömmum upp að 70 mg.
„Notagildi þess byggist á því að það sé notað á réttan hátt. Sé þess ekki gætt getur það hæglega snúist upp í andhverfu sína,“ segir hann.
Hann bendir á að þó hámarksskammtur af lyfinu sé 70 mg virðist annað lögmál ríkja hér á landi.
„Hér hefur ríkt algjör villta-vesturs-stemning og fagmennskan í mörgum tilvikum ekki setið í fyrirrúmi. Þannig hafa sumir læknar einsett sér að virða fyrirmæli lyfjaframleiðandans um hámarksskammt að vettugi. Með einkunnarorðin „I did it my way“ að leiðarljósi hefur fólki verið ávísað margföldum hámarksskömmtum af lyfinu og því deilt út eins og smákökum. Það er með ólíkindum að fáeinir læknar skuli ávísa lyfinu í kolröngum skömmtum sem reynst geta fólki skaðlegir.“
Stefán segir að Óttar Guðmundsson geðlæknir hafi nýlega bent á að fíklum í Krýsuvík væri ávísað allt að fjórföldum hámarksskammti og fíklarnir sjálfir fengju miklu um það ráðið.
„Meira að segja hjartasjúklingum er ávísað risaskömmtum þrisvar á dag þótt aðeins eigi að taka lyfið einu sinni á dag, að morgni. Auðvelt virðist vera að fá lyfjaskírteini fyrir lyfinu. Þótt lyfið sé ekki ætlað þeim sem eiga við fíknivanda að stríða hafa fjölmargir fíklar, sem eru á ýmsum slævandi og athyglisskerðandi lyfjum, fengið lyfjaskírteini. Það er farið á svig við margar aðvaranir sem tilteknar eru á fylgiseðlinum. Það vekur því undrun að Sjúkratryggingar Íslands skuli niðurgreiða margfalda hámarksskammta af lyfinu sem engar klínískar rannsóknir styðja og ógna meira að segja heilsu fólks. Þótt Elvanse hafi ekki verið mörg ár á markaði eru þegar þekkt skyndidauðsföll vegna ofskömmtunar þess,“ segir Stefán í greininni.
Hann segir að þó að aðeins sé leyfilegt að hafa einn lyfseðil fyrir lyfinu í tilteknum styrkleika í gáttinni séu oft fleiri lyfseðlar í sama styrkleika settir í gáttina og stundum allir styrkleikar af lyfinu.
„Svo reynir fólk að leysa allt út. Yfirleitt er ekki tilgreint á lyfseðli hver daglegur skammtur á að vera og oftast er ógerningur að ná sambandi við lækna til að inna þá eftir því. Mörgum er ávísað svo miklu magni að þeir geta selt hluta af því,“ segir Stefán sem endar grein sína á þessum orðum:
„Þótt skortur sé á lyfinu í flestum löndum er ekki ýkja langt síðan nóg var til af Elvanse í landinu, en það kláraðist á methraða, enda margir með alla styrkleika í gáttinni og oft fleiri lyfseðla af sama styrkleika.
Hér stefnir í Elvanse-faraldur ef fram fer sem horfir. Það er afleitt þegar fólk sem ekki ætti að vera á lyfinu sópar til sín þeim pakkningum sem til landsins berast á kostnað þeirra fjölmörgu sem nauðsynlega þurfa á lyfinu að halda. Sérstaða Íslendinga felur ekki í sér að þeir þurfi að nota allt aðrar skammtastærðir en tíðkast annars staðar. Það er því brýnt að lyfinu sé ekki ávísað í hærri skömmtum en leyfilegt er.“