Á undanförnum dögum hafa margir háttsettir vestrænir stjórnmálamenn heimsótt Kyiv og haft ávísanaheftið með til að geta skrifað út tékka fyrir áframhaldandi stríðsrekstri. Þeir hafa einnig verið með yfirlýsingar um samstöðu Vesturlanda með Úkraínu.
En þrátt fyrir þessi merki um áframhaldandi stuðning við Úkraínu þá glíma bandalagsríkin, sem eru rúmlega 50, við vaxandi óvissu um hvernig sé hægt að viðhalda stuðningnum við Úkraínu og auka hann ef stríðið, eins og margt bendir til, dregst á langinn í mörg ár.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Kyiv í byrjun síðustu viku og hafði hvatningarorð með í farteskinu auk hernaðarstuðnings að verðmæti 100 milljóna dollara.
Daginn eftir kom Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, til Kyiv ásamt Charles Miche, formanni Evrópuráðsins.
Pistorius hafði meðferðis loforð um hernaðarstuðning að verðmæti 1,3 milljarða evra. Innifalið í þessum stuðningi er meðal annars háþróað loftvarnarkerfi en engar Taurus stýriflaugar en þær vilja Úkraínumenn gjarnan fá. Þjóðverjar hafa einmitt verið gagnrýndir fyrir að draga lappirnar hvað varðar að láta Úkraínumönnum háþróuð vopn, eins og Taurus stýriflaugar, í té. En það er ekki hægt að líta framhjá því að Þjóðverjar eru sú Evrópuþjóð sem leggur mest af mörkum til Úkraínu.
Frá upphafi stríðsins nemur stuðningur bandalagsríkjanna við Úkraínu rúmlega 230 milljörðum dollara.
Þetta veitir vonir um að Vesturlönd muni halda áfram að styðja við bakið á Úkraínu en ákveðnar efasemdarraddir eru uppi um að svo verði.
Nýjasti hjálparpakkinn frá Bandaríkjunum er mjög lítill miðað við fyrri hjálparpakka. Ástæðan er að repúblikanar, sem eru í meirihluta í fulltrúadeild þingsins, koma í veg fyrir frekari aðstoð við Úkraínu. Líklegt má telja að enn muni draga úr stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu ef Donald Trump og einangrunarsinnar í repúblikanaflokknum bera sigur úr býtum í kosningunum í Bandaríkjunum eftir tæpt ár.
Justyna Gotkowska, sérfræðingur hjá pólsku hugveitunni OSW, segir að aðvörunarljós blikki einnig í Evrópu. Í greiningu á stöðunni segir hún að sögn Jótlandspóstsins að vaxandi þreytu gæti í Vestur-Evrópu hvað varðar stuðning við Úkraínu og það skorti vilja til að standa í langvarandi stríði. Þess utan sé vilji til staðar til að blekkja sjálfan sig með því að halda að hægt sé að ná samningum við Rússa.
Þjóðverjar, mikilvægasta evrópska stuðningsþjóð Úkraínu, glíma við eigin innanríkisvandamál, til dæmis erfið ríkisfjármál, sem geta valdið vanda við að uppfylla loforð um að tvöfalda stuðninginn við Úkraínu á næsta ári.
Í Mið-Evrópu leggjast bæði Ungverjaland og Slóvakía gegn frekari aðstoð við Úkraínu og Geert Wilders, sem sigraði í nýafstöðnum þingkosningum í Hollandi, tekur í sama streng.
Tatjana Stanovaja, rússneskur sérfræðingur sem er gagnrýnin á rússnesk stjórnvöld, segir að þetta séu allt saman hættumerki hvað varðar stuðninginn við Úkraínu en enn sé of snemmt að detta í einhverja svartsýni. Hún segir að þau pólitísku öfl á Vesturlöndum, sem vilja svíkja Úkraínumenn og láta Rússum landið í té, séu ekki fyrirferðarmikil. Hún bendir einnig á að Rússar hafi ekki ótakmarkaðar auðlindir til að standa í stríði. „Það skiptir engu hvernig þú setur þetta upp, stríðið reynir á Rússa. Úkraína og Vesturlönd verða að skilja þetta og sýna þolinmæði og undirbúa sig undir langvarandi stríð. Þannig er raunveruleikinn. Þetta þýðir alls ekki að Pútín sé öruggur um sigur,“ segir hún.