„Hvað á ég að gera?“ spurði Yevgeny þegar fréttamaður BBC ræddi við hann um stríðið og herkvaðningu en hann hræðist að verða kvaddur í herinn. „Það eru ekki allir hermenn. Það þarf ekki að harðloka landinu. Það er ekki hægt að þjappa öllum saman eins og var gert í Sovétríkjunum,“ sagði hann.
Hann er meðal þeirra 20.000 úkraínsku karlmanna sem hafa flúið land að mati rannsóknarhóps BBC sem hefur kortlagt hvar menn fara helst ólöglega úr landi en það er við landamærin að Póllandi, Rúmeníu, Moldóvu, Ungverjalandi og Slóvakíu.
21.000 til viðbótar hafa reynt að flýja en verið stöðvaðir.
Tæp tvö ár eru síðan Rússar réðust inn í Úkraínu og eins og Rússar þá reyna Úkraínumenn nú að styrkja her sinn. En hver staða hans er, er ekki vitað því Úkraínumenn deila litlum sem engum upplýsingum um her sinn og hafa ekki veitt neinar upplýsingar um mannfall í eigin röðum.
Þeir veita heldur ekki upplýsingar um hversu margir eru í hernum en í september sagði Rustem Umerov, varnarmálaráðherra, að rúmlega 800.000 menn séu undir vopnum.
Í sumar kom fram að bandarísk stjórnvöld telja að um 70.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu.