Í grein sinni í apríl 2021 velti hann fyrir sér hvers vegna einn vinsælasti gosdrykkur heims, hið hefðbundna Coca Cola, væri ólíkur á milli landa og á milli umbúða.
Sagði hann að munurinn virtist liggja í kolsýrumagninu sem væri minna í því íslenska en því erlenda. Þetta hefði ótvíræð áhrif á bragðið. Sendi hann erindi til fyrirtækisins þar sem hann spurði hvort stætt væri á að auglýsa í báðum tilvikum að bragðið væri upprunalegt.
Þess má geta að Þorsteinn fékk svar á sínum tíma en kannski ekki svarið sem hann óskaði eftir. Var það á þá leið að smekkur manna væri misjafn eftir löndum; kolsýrumagnið hér á landi væri með því mesta sem gerðist og það væri yfirleitt minna í nágrannalöndunum.
Þorsteinn segist óska þess að kolsýrumagnið sé jafn mikið og það var þegar drykkurinn kom fyrst í verslanir hér á landi, en því sé ekki til að heilsa – því miður.
„Kók í dósum sem koma að utan er skást, þótt ekki sé það fullnægjandi. Kolsýran í umbúðum sem fyllt er á hérlendis er svo lítil að hennar gætir vart. Þrátt fyrir það segir á umbúðunum að bragðið sé hið upprunalega. Að mínu mati jaðrar sú fullyrðing við vörusvik sem umboðsaðilinn ætti að sjá sóma sinn í að leiðrétta,“ segir hann í Velvakanda Morgunblaðsins í dag.