fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fókus

Sólborg kemur bókinni sinni til varnar – „Fullyrðingar á borð við „þessar bækur eru barnaníð“ er eitthvað sem ég verð að svara fyrir“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 20. september 2023 10:13

Mynd: Dv/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólborg Guðbrandsdóttir, rithöfundur og aktívisti, kemur bókinni sinni Fávitar til varnar.

Hávær umræða um hinsegin fræðslu og kynfræðslu í grunnskólum landsins hefur varla farið framhjá nokkrum manni og á samfélagsmiðlum má sjá að mörgum er heitt í hamsi vegna málsins.

Sjá einnig: Umræðan um hinsegin fræðslu á suðupunkti

Fávitar er samfélagsverkefni Sólborgar Guðbrandsdóttur gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi en það hófst á samnefndri Instagram-síðu árið 2016. Sólborg hefur haldið fyrirlestra fyrir þúsundir barna og unglinga þar sem hún svarar spurningum þeirra um meðal annars kynlíf, ofbeldi, samskipti, líkamann og fjölbreytileika. Átakið Fávitar birtist í bókaformi árið 2020 þar sem Sólborg tók saman spurningar sem henni bárust árin á undan og svör við þeim.

Bók Sólborgar virðist nú vera orðin að skotmarki þeirra sem hafa verið hvað háværastir í umræðunni gegn kynfræðslu ungmenna.

„Virðist ætla að reita nokkra álhausa til reiði“

„Mér var fyrr í kvöld bent á nokkuð óvæga umræðu um fyrstu bókina mína, Fávitar, sem ég gaf út árið 2020. Hún virðist ætla að reita nokkra álhausa til reiði næstu daga fyrir teiknaðar myndir af kynferðislegum athöfnum. Þó mér finnist fínt að hún sé að skapa einhverja umræðu núna þremur árum eftir útgáfuna, þá eru fullyrðingar á borð við „…þessar bækur eru barnaníð“  eitthvað sem ég verð að svara fyrir,“ skrifar Sólborg í pistli á Facebook.

„Bókin inniheldur hátt í fimmhundruð sannar spurningar frá íslenskum börnum um 11-15 ára gömlum þar sem ekki stökum staf eða orðalagi var breytt af mér sjálfri. Spurningarnar fékk ég sendar til mín í gegnum samfélagsmiðla og á fyrirlestrum mínum í grunnskólum og félagsmiðstöðvum. Spurningarnar sýna það skýrt hvar börn og ungmenni eru stödd hvað þessi málefni varðar og hvaða pælingar þau hafa. Þau vilja öll bara fá að vita að þau séu eðlileg í samanburði við jafnaldra sína, þó spurningarnar þeirra séu jafn fjölbreyttar og þær eru margar.“

Bókin kom út árið 2020 við góðar undirtektir.

Kynslóð eftir kynslóð hefur slegið á handarbökin á ungu fólki

„Kynslóð eftir kynslóð hefur slegið á handarbökin á ungu fólki og fengið þau til að skammast sín fyrir eðlilegar vangaveltur um kynlíf og þessi skömm fylgir fólki oft alla tíð með vondum afleiðingum. Mér datt svona í hug að ég gæti reynt að breyta þeirri stöðu, þó ekki væri nema lítið, með því að svara spurningunum þeirra hispurslaust og heiðarlega í þessari bók. Mér til aðstoðar fékk ég svo kynfræðinga, kvensjúkdómalækni, lögfræðing o.fl. til að yfirfara ýmis svör og tryggja það að ég væri á nokkurn veginn réttri leið. Bókin fékk góð viðbrögð, enda ekki vanþörf á slíku efni á íslensku,“ segir Sólborg.

„Við erum sorglega dugleg í þessu samfélagi að segja börnum og unglingum bara hvað þau eigi ekki að gera en yppum svo bara öxlum og þeirra helsti kennari verður klámið. Svo skammast fólk núna í þeim sem voga sér að reyna að vera til staðar fyrir unglinga með ásökunum um illar hvatir. Umræðan síðastliðnar vikur hefur afhjúpað svo yfirgengilega heimsku hvað þessi málefni varðar að ég veit varla hvar ég á að byrja. Ég veit ekki hvort þetta sé pjúra afneitun fullorðins fólks, eigin skömm, hreint þekkingarleysi eða allt þrennt.“

„Rannsóknir sýna það skýrt að ungt fólk horfir á klám“

Sólborg segir að á bak við kynfræðslu séu fjöldamargar rannsóknir fræðslunni til stuðnings.

„Rannsóknir sýna það skýrt að ungt fólk horfir á klám og það byrjar ansi snemma, sama hversu saklaus þið haldið að börnin ykkar séu. Rannsóknir sýna það líka að kynfræðsla sé mikilvæg forvörn í því að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Kynfræðsla ýtir ekki undir það að börn byrji að stunda kynlíf. Þvert á móti þá eykur hún líkurnar á því að þau séu örugg þegar og ef þau kjósa að stíga þar sín fyrstu skref og þau sem fá góða fræðslu, taka þau skref seinna á lífsleiðinni. Klám kennir unglingum að kynlíf sé handrit, án samskipta, ein leið eða engin leið. Klám ýtir undir valdamisræmi milli kynja þar sem strákar eiga að stjórna og stelpur að hlýða. Það sýnir sig bersýnilega, hvaða áhrif þetta hefur á ungt fólk, þegar algengustu spurningarnar mínar á þessum tíma frá strákum tengdust því hversu oft þeir mættu runka sér á dag á meðan stelpurnar spurðu mig hversu mikið myndi blæða úr þeim í kynlífi. Það er staðan,“ segir hún.

„Ég hef lesið ótrúlegustu hluti um bókina mína í kvöld“

„Ég hef lesið ótrúlega hluti um bókina mína í kvöld. Að hún sé viðbjóðslegt spillingarefni, hafi verið gefin út af „klámbúð“ í því skyni að pota hræðilegum kynlífstækjum að börnum, að hún innihaldi leiðbeiningar um það hvernig maður þukli og örvi á sér endaþarminn og kannski það heimskulegasta, að hún varði við hegningarlög. Ef þessir álhausar (þar með taldir misskarpir varaþingmenn) gætu lesið sig til, þó ekki nema að litlu leyti, kæmust þeir mögulega að því að það að SINNA EKKI KYN- OG KYNJAFRÆÐSLU stangast á við fjölda laga: Barnalög, Lög um grunnskóla, Lög um framhaldsskóla, Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Það stangast líka á við fjölmargar stefnur, aðgerða- og þingsáætlanir sem hafa verið samþykktar og alþjóðlega mannréttindasamninga sem Ísland hefur undirgengist, t.a.m. samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, Menntastefnuna fyrir árin 2020-2030, svo einungis nokkur dæmi séu nefnd. Það að sinna kynfræðslu í skólakerfinu varðar ekki við hegningarlög og þeir sem eru með vott af heilastarfsemi á milli eyrnanna skilja það.

Ef teiknuð mynd af munnmökum í bókinni minn er það „viðurstyggilegasta“ sem þetta fólk „hefur á ævi sinni séð“, guð forði þeim þá frá því að lenda inn á klámsíðum sem börnin þeirra eru að heimsækja og læra af, nú eða heyra af því kynferðisofbeldi sem börnin okkar á Íslandi eru að beita hvert annað. Ég á ekki nema nokkur hundruð slíkar sögur.

Verndum börnin, var það ekki?“

Sjá einnig: Svavar Knútur líkir samfélagsmiðlastorminum við Lúkasarmálið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stjörnurnar á Met Gala 2025

Sjáðu stjörnurnar á Met Gala 2025
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsathöfnin sem hún hataði mest með Hugh Hefner

Kynlífsathöfnin sem hún hataði mest með Hugh Hefner