Bayern Munchen er til í að brjóta félagsmet í kaupum á einum leikmanni til að fá Harry Kane í sumar. Sky Sports segir frá.
Fulltrúar Bayern flugu til London í morgun í viðræður við Daniel Levy og félaga í Tottenham.
Levy er harður í horn að taka og hefur hingað til sagt að Kane sé ekki til sölu, allavega ekki fyrir minna en 100 milljónir punda.
Framherjinn á þó aðeins ár eftir af samningi sínum við Tottenham og félagið því ekki í mjög sterkri samningsstöðu.
Kane ætlar ekki að framlengja samning sinn og verður Tottenham því helst að selja hann í sumar.
Bayern er líklegasti áfangastaðurinn og er félagið nú sagt tilbúið að borga meira en þær 80 milljónir evra sem félagið borgaði Atletico Madrid fyrir Lucas Hernandez 2019.
Kane hefur einnig verið orðaður við Manchester United undanfarna vikur og mánuði en það virðist ekkert ætla að verða af því. United er að fá Rasmus Hojlund. Þá hefur Paris Saint-Germain verið nefnt til sögunnar einnig.