Samkvæmt ábendingunni höfðu margir vinningshafar í stóru happdrætti þekkst og einnig fylgdi sögunni að sá sem hafði unnið eina milljón dollara síðast væri svikahrappur.
Um happdrætti á vegum McDonald´s var að ræða. Það byggðist á hinu vinsæla borðspili Monopoly (Matador). Keðjan kynnti happdrættið fyrst til sögunnar 1987 og stóð ítrekað fyrir því á tíunda áratugnum.
Þegar viðskiptavinir pöntuðu mat fengu þeir afhenta Monopolymiða sem gátu innihaldið vinninga, allt frá gosdrykkjum og hamborgurum til bíla. Stærsti vinningurinn var ein milljón dollara.
En flestir viðskiptavinanna áttu engan séns á að fá stóru vinningana.
Það var fyrrum lögreglumaður frá Flórída sem sá til þess. Hann var heilinn á bak við svindlið.
Jerry Jacobson hafði hætt hjá lögreglunni og ráðið sig til starfa hjá öryggisfyrirtæki sem átti að sjá um að happdrættið gengi vel og svikalaust fyrir sig.
Hann bar ábyrgð á eftirlitinu með prentun miðanna. Hann setti þá síðan í umslög sem voru innsigluð með málmlímmiðum. Hann flutti síðan miðana í umbúðaverksmiðjur þar sem þeim var dreift tilviljanakennt. Óháður endurskoðandi hafði eftirlit með ferlinu.
Hann svindlaði í fyrsta sinn á kerfinu 1989 þegar hann lét eldri bróður sinn fá miða með 25.000 dollara vinningi. Í kjölfarið fékk slátrarinn hans veður af þessu og vildi einnig fá vinningsmiða. En þar sem hann var bæði vinur og nágranni Jacobson taldi hann það of áhættusamt, það gæti vakið grunsemdir.
Slátrarinn lofaði að fá vin sinn, sem bjó langt í burtu, til að gefa sig fram sem vinningshafa. Hann fékk því vinningsmiða upp á 10.000 dollara hjá Jacobson. Af þeirri upphæð runnu 2.000 dollarar til Jacobson. Hann fékk einnig 20.000 dollara þegar frændi hans „vann“ 200.000 dollara.
Þannig gekk þetta í nokkur ár. Jacobson lét vini og vandamenn fá vinningsmiða gegn því að fá hluta af verðlaununum. Peningarnir streymdu inn.
Nokkrum árum síðan fékk hann fyrir mistök sendingu frá birgja í Hong Kong. Í henni voru málmlímmiðar sem voru notaðir til að innsigla vinningsumslögin. Þetta þýddi að nú gat hann skipt vinningsmiðum út með venjulegum miðum og síðan innsiglað umslögin.
Þar sem endurskoðandinn fylgdist alltaf með ferlinu fóru skiptin alltaf fram á karlaklósetti þegar þau voru á leið til umbúðaverksmiðjanna með umslögin.
1995 komst Jacobson í samband við Jerry Colombo sem sagðist tilheyra Colombo-fjölskyldunni sem er ein af fimm stærstu mafíufjölskyldunum í New York.
Colombo vildi vera með í svindlinu og kom Jacobson í samband við fólk víða um Bandaríkin sem greiddi honum fyrir að fá vinningsmiða.
Ef vinningshafarnir tengdust á einhvern hátt eða bjuggu nálægt hver öðrum, fóru þeir til annars ríkis til að leysa vinninginn út eða gáfu upp rangt heimilisfang.
Colombo lést í bílslysi 1998. Í kjölfarið byrjaði Jacobson að notast við enn skuggalegri aðila sem milliliði, meðal annars eigendur nektardansstaða og fyrrum fíkniefnasmyglara.
Með því að notast við marga milliliði dró Jacobson úr líkunum á að slóðin myndi liggja til hans. En kannski missti hann yfirsýnina yfir hverjum hann gat treyst.
Að minnsta kosti barst FBI fyrrgreind ábending ári síðar og þá hrundi spilaborgin til grunna.
Í september 2001 voru 50 manns handteknir fyrir að hafa svikið út 24 milljónir dollara í happdrættinu.
Jacobson var dæmdur í þriggja ára fangelsi og til að greiða 12.5 milljónir dollara í bætur.
Hægt er að fræðast nánar um málið með því að horfa á heimildarmyndina McMillions á streymisveitu HBO.