Þessu hafa herbloggararnir ekki gleymt og hefur þeim orðið tíðrætt um óhæfa hershöfðingja eftir að allt að 100 rússneskir hermenn féllu í Kreminna, sem er nálægt fremstu víglínu.
Samkvæmt því sem rússneskir heimildarmenn segja þá hafði hermönnum úr einni herdeild verið safnað saman í samkomusal í síðustu viku. Þeir áttu að halda af stað í ákveðna hernaðaraðgerð en ekki fyrr en þeir hefðu hlustað á ávarp Sukhrab Akhmedov, hershöfðingja.
En klukkustund eftir klukkustund leið án þess að Akhmedov skilaði sér. En það gerðu hins vegar flugskeyti sem Úkraínumenn skutu úr Himars-flugskeytakerfi. Þetta segja rússneskir herbloggarar og eru öskureiðir yfir því að svona margir hermenn hafi verið látnir vera á einum stað. Það hafi gert Úkraínumönnum auðvelt fyrir. Þessi ákvörðun hafi kostað 100 menn lífið. Rússneski herinn hefur ekki staðfest þetta.
„Við erum í stríði við eigin heimsku og vanrækslu,“ sagði einn bloggarinn og á bloggrásinni Rybar sagði meðal annars: „Það féllu færri í margra daga bardögum í suðurhluta Donetsk en af völdum þessarar glæpsamlegu heimsku sem yfirmaður herdeildarinnar sýndi af sér“.
Þriðji bloggarinn skrifaði að skjóta eigi þann sem ber ábyrgð á þessu og skipti þá engu hvaða stöðu hann sé með innan hersins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Akhmedov er gagnrýndur því fyrr á árinu var hann harðlega gagnrýndur fyrir árásir nærri Vuhledar. Þar voru brynvarðar herdeildir sendar hvað eftir annað gegn úkraínskum varnarlínum. Það eina sem Rússar höfðu upp úr þessu var mikið mannfall auk þess sem þeir misstu marga skriðdreka og önnur hertól.