Þessari spurningu varpaði lesandi vefs Sky News fram og til svara var hernaðarsérfræðingurinn Sean Bell.
Hann sagði að til að hægt sé að svara þessari spurningu þurfi að líta snöggt á nýlega sögu átaka í Donbas. Könnun sem var gerð þar í mars-apríl 2014 hafi leitt í ljós að 31% íbúa vildu að héraðið segði skilið við Úkraínu en 58% vildu sjálfsstjórn innan Úkraínu.
Í apríl 2014 náðu vopnaðir aðskilnaðarsinnar, með stuðningi Rússa, stjórnarbyggingum í Donbas á sitt vald og greip úkraínski herinn þá til aðgerða gegn þeim. Rússar sendu þá herlið á vettvang og aðstoðuðu aðskilnaðarsinnana við að halda því sem þeir höfðu náð.
Ýmsum vopnahléssamningum var komið á en þeir voru rofnir jafnharðan og við tóku „frosin“ átök þar sem víglínan hreyfðist lítt.
2021 jókst mannfall Úkraínumanna mikið og rússneskar hersveitir voru á sveimi við úkraínsku landamærin. Rússar viðurkenndu Donetsk og Luhansk sem sjálfstæð ríki þann 21. febrúar 2022 og sendu herlið til héraðanna. Þremur dögum síðar réðust þeir inn í Úkraínu.
Bell benti síðan á að flestir hernaðarsérfræðingar telji að það verði mjög erfitt fyrir Úkraínumenn að frelsa allt Donbas úr klóm Rússa. Ef það tækist þá myndi ástandið á svæðinu væntanlega verða mjög óstöðugt eftir stríð í tæpan áratug. Þar muni Rússar væntanlega styðja við bakið á uppreisnarmönnum og ástandið í héraðinu verða þannig að ekki verði hægt að stjórna því.