Ef íþróttafréttamaðurinn, Hörður Magnússon, væri að stýra einhverju hjá KR myndi hann skoða það að senda Simen Kjellevold, markvörð liðsins heim.
Hörður var sérfræðingur í markaþætti Rúv um bikarinn í gær en norski markvörðurinn hefur verið til umræðu í sumar.
KR vann sigur á Fylki í gær en Kjellevold kom til KR fyrir tímabilið. Höddi Maggi er ekki hrifin og myndi skoða það að senda hann heim með Norrænu.
„Ég verð að segja að Simen Kjellevold, ef ég væri forráðamaður KR myndi ég senda hann mögulega með Norrænu aftur til Noregs. Hann er ekki að gera neitt fyrir þá. Ef þetta heldur áfram gæti KR farið úr deild þeirra bestu,“ sagði Höddi Magg á RÚV í gær.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir tók í svipaðan streng og velti fyrir sér því trausti sem markvörðurinn fær.
„Maður hugsar líka: Hversu mikið traust er hann með? Maður sér það í bikarleikjum að það er oft skipt um markmenn en þeir halda sama markmanninum, hann er búinn að gera ótal mistök í sumar.“