Illugi Jökulsson, rithöfundur með meiru, deildi skemmtilegri sögu í færslu á Facebook. Vilja sumir vina hans meina að rithöfundurinn hafi tekið sér skáldaleyfi. En hvort sem sagan er sönn eða ekki, þá er hún skemmtileg. Og eins og þeir vita sem stunda heitu pottana, þá eiga sér oft stað þar skemmtilegar og merkilegar umræður.
Gefum Illuga orðið:
Í heita pottinum rétt áðan sat kona líklega komin nærri áttræðu, og dormaði. Þá kemur önnur kona á svipuðu reki og stígur niður í pottinn. Sú fyrri rekur upp stór augu og segir: „Nei, Helga mín, ert þú ekki í útlöndum?“
Sú seinni hallar undir flatt, fær sér sæti en segir ekkert.
Eftir nokkra stund segir sú fyrri, ögn sár: „Þú svarar engu?“
Þá sagði sú seinni: „Þú spurðir hvort ég væri í útlöndum. Ég þarf ekkert að svara því. Þú sérð að ég er ekki í útlöndum.“
Það skall á þögn. Svo segir sú fyrri skyndilega og hirðir ekki um hverjir heyra:
„Alltaf skaltu vera jafn djöfull merkileg með þig.“
Hin svarar eldsnöggt:
„Ég er þó ekki alltaf að þvaðra eintóma andskotans vitleysu.“
Það skall aftur á þögn. Svo lengri þögn. Þegar ég var að búast til að fara, heyri ég að sú fyrri segir:
„Jæja, Helga mín, hvernig hefurðu það annars?“
Og Helga svaraði: „Ja, það er nú bara svona mesta furða, vinan.“