fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Íslands-lestrarbók kemur út í Þýskalandi

Arthúr Björgvin Bollason skrifar bók um Ísland á þýsku

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 12. febrúar 2016 09:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arthúr Björgvin Bollason hefur síðustu árin skrifað bækur um Ísland á þýsku og hafa þær hlotið afar góðar viðtökur í Þýskalandi. Ný bók eftir hann kemur út þar í landi í haust, Íslands-lestrarbók.

Arthúr Björgvin, sem enn býr að hluta í Frankfurt, hefur síðustu tólf ár haft það að aðalstarfi að sinna markaðs- og kynningarmálum fyrir Icelandair, einkanlega samskiptum við þýska fjölmiðla. Hann hefur komið með allar stærstu þýsku sjónvarpsstöðvarnar hingað til lands, margar útvarpsstöðvar og fjölmarga prentmiðla.

Portrett af landinu

„Þetta er Íslands-lestrarbók,“ segir Arthur Björgvin aðspurður um bókina sem er í smíðum. „Ég var svolítið efins að ég nennti að standa í þessu verkefni því þetta er mörg hundruð síðna bók í bókaflokki sem er að verða nokkuð vinsæll í Þýskalandi. Þegar hafa komið út bækur um Ástralíu, Nýja-Sjáland og Kanada. Fjórða bókin verður um Ísland og er „portrett“ af landinu þar sem ég segi frá helstu atvinnugreinum, gróðri og fuglalífi og öllu öðru sem nöfnum tjáir að nefna. Ég segi líka sögur af furðufuglum og alls kyns fólki.

Í þessum bókum eru lagðar ákveðnar meginlínur og vissir hlutir verða að vera í þeim. Á hinn bóginn hefur maður frelsi til að spinna marga þræði sjálfur. Hver höfundur sem semur bók í þessum flokki á að draga fram það sem honum finnst markverðast og mest sérkennandi fyrir þjóð sína. Hjá fámennri þjóð eins og okkar hefur komið fram fjöldinn allur af furðufuglum og einkennilegum og skemmtilegum mönnum sem ég segi frá eins og Gvendi dúllara, Eldklerkinum og ýmsum galdramönnum.

Arthúr Björgvin skrifar bókina á þýsku. Fyrstu bók sína á því tungumáli skrifaði hann árið 1998 og hún heitir Að uppgötva og upplifa Ísland og var hluti af vinsælum bókaflokki. Önnur bók var bókmenntaleiðsögn um Ísland, sömuleiðis í bókaflokki. „Þar fór ég með Íslendingasögurnar í farteskinu um landið og lýsti umhverfinu í gegnum sögurnar okkar, ekki bara Íslendingasögurnar heldur íslenskar bókmenntir fram til Einars Kárasonar og Einars Más Guðmundssonar. Fyrir mér vakti að draga fram allt það sem höfundarnir okkar hafa skáldað inn í landslagið og staðina. Eftir útkomu þeirrar bókar endursagði ég tvær Íslendingasögur á þýsku á hljóðbók, Njálu og Eglu. Mér var tyllt upp á hóla í Rangárþingi og látinn masa þar í tvo daga og svo var lesturinn snyrtilega klipptur á tvo diska.“

Bera skáldið í læknum

Arthúr Björgvin hefur tvisvar komið fram í Druckfrisch sem er eini bókmenntaþátturinn í þýska sjónvarpinu og er á dagskrá einu sinni í mánuði og þá hálftíma í senn.

„Þegar Bókmenntaleiðsögnin kom út var mér boðið í Druckfrisch. Oft eru Nóbelsverðlaunahafar gestir þessa þáttar og ég var einn af fáum gestum þess árs sem hafði ekki fengið Nóbelinn. Það er því óhætt að segja að ég hafi verið í mjög góðum félagsskap.

Umsjónarmaður þessa þáttar, Denis Scheck, er bókmenntagúrú Þjóðverja. Hann og aðstoðarmenn hans komu sérstaklega með mér hingað til lands, fóru með mig í Landmannalaugar og tóku við mig viðtal sem var frægt, fór á Youtube og fékk mikið áhorf því ég var í sundskýlu í Landmannalaugum meðan hann mætti í jakkafötum með þverslaufu og sat þannig í lauginni með mér. Þetta var vægast sagt óvenjulegt viðtal. Það koma út um 140.000 bækur í Þýskalandi á ári þannig að slagurinn um að komast í þennan hálftíma þátt er nokkuð harður. Það skipti engum togum að eftir þetta viðtal seldist bók mín á næstu vikum í 3.000–4.000 eintökum.

Ekki löngu seinna var bókamessan í Frankfurt þar sem Ísland var heiðursland. Ég vann sem fjölmiðlatengill, hitti æði marga og það var mjög algengt að ég væri spurður hvort ég væri ekki fáklæddi höfundurinn í læknum. Á bókastefnunni gekk ég því undir nafninu „bera skáldið í læknum“.

Í kringum viðtalið í Landmannalaugum spurði Scheck hvort ég væri með eitthvað fleira á prjónunum. Ég sagði honum frá hljóðbókinni sem þá var í vinnslu og hann sagði: „Ef þú endursegir Íslendingasögur hjá „Supposé“ sem er uppáhaldsforlagið mitt í Þýskalandi þá kem ég aftur til Íslands og tek annað viðtal við þig“. Það skipti engum togum að þegar endursögn mín á Njálu kom út sem hljóðbók þá kom hann og við fórum á Þingvelli þar sem hann tók fimmtán mínútna viðtal. Það er fátítt að sami höfundur komi oftar en einu sinni í Druckfrisch og það á jafnt við um Nóbelshöfunda sem aðra. Þannig að ég var ansi sáttur við minn hlut.“

Arthúr Björgvin er sem fyrr óþreytandi við að kynna Ísland fyrir Þjóðverjum. Undanfarið hefur hann haft umsjón með Íslandskvöldum í Þýskalandi þar sem Emil Þór Sigurðsson ljósmyndari sýnir myndbönd um Ísland og Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Eldjárn skemmta með þjóðlegri tónlist. Svo er hann vitanlega að vinna í nýju bókinni og mun skila handritinu í vor.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni

Tók mynd af sér með nýfæddum syninum en það var mamman í bakgrunninum sem stal senunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun