Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, selur íbúð sína við Meistaravelli í Reykjavík.
Hann og kærasta hans, söng- og leikkonan Selma Björnsdóttir, festu kaup á sinni fyrstu fasteign saman í sumar. Þau keyptu tæplega 200 fermetra íbúð við Lynghaga í Reykjavík á 130 milljónir.
Parið tók fyrst saman árið 2018 en hættu saman tveimur árum seinna, ástin kviknaði á ný vorið 2021 og hafa þau verið saman síðan.
Kolbeinn auglýsir íbúðina til sölu á Facebook. „Ansi margar yndislegar minningar á ellefu árum á Meistaravöllum 9. Frábærir nágrannar í öllum stigagöngum,“ segir hann og birtir fasteignaauglýsinguna á Vísi.
Um er að ræða bjarta og vel skipulagða fjögurra herbergja íbúð. Hún er 100,4 fermetrar að stærð og ásett verð er 63,9 milljónir.