Lögreglunni í Róm grunar að mögulega gangi raðmorðingi laus í ítölsku höfuðborginni. Með skömmu millibili hafa lík þriggja kvenna fundist í tveimur íbúðum í Prati-hverfi borgarinnar. The Guardian greinir frá.
Allar eiga konurnar það sameiginlegt að hafa starfað sem vændiskonur en lík tveggja kínverskra kvenna, sem voru á fimmtudagsaldri, fundust látnar í íbúð við Augusto Riboty-götu í vikunni. Þær höfðu báðar verið stungnar til bana.
Áður hafði hin kólumbíska Marta Castano Torres, sem var á sjötugsaldri, fundist látin í kjallaraíbúð við nærliggjandi götu. Torres starfaði einnig sem vændiskona og var sömuleiðis stungin til bana.
Um er að ræða fínt hverfi í höfuðborginni en þar hefur færst í aukana að skipulögð glæpasamtök geri út einstaklinga í kynlífsvinnu í fínum íbúðum.
Í ljósi þess að áverkar á líkunum voru sambærilegir þá útiloka lögregluyfirvöld ekki þá kenningu að sami einstaklingurinn beri ábyrgð á dauða kvennanna.
Morðin hafa hrundið af stað ákalli um að vændi verði lögleitt á Ítalíu til þess að tryggja betur öryggi fólks sem starfar í geiranum. Leyfilegt er að selja vændi á götum úti í landinu en skipulagt vændi sem og vændishús eru ólögleg.