Úkraínumenn hafa alfarið vísað því á bug að þeir séu með í bígerð að nota „skítasprengju“ (e. dirty bombs) gegn innrásarliði Rússa á næstu dögum. Um er að ræða sprengjur sem innihalda geislavirk efni en Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, greindi frá þessum áhyggjum Rússa meðal annars í samtali við breskan kollega sinn, Ben Wallace. Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, brást við ásökunum með því að segja að þær bentu til þess að Rússar væru sjálfir að undirbúa notkun á slíkum sprengjum í hernaði sínum og væru að búa sér til tylliástæðu til þess að verja gjörðir sínar.
Sagði Zelensky enn fremur að Rússar bæru ábyrgð á öllum hugsanlegum vafasömum hernaði sem hefði átt sér stað í þessu stríði.
Hélt hann því fram að Rússar væru að hóta „kjarnorkuslysi“ í Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu sem hertekið var af Rússum í mars á þessu ári. Þá ítekraði Zelensky ennfremur þær meintu hótanir Rússa að sprengja upp Kakhovka vatnsaflsvirkjunina. Yrði það gert myndi áin Dnipro flæða yfir bakka sína og þar með myndi framrás Úkraínuhers stöðvast. Yrði stíflan eyðilögð myndi það þó bitna verst á almennum borgurum svæðisins.
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands brugðust við ásökunum Rússa með sameiginlegri yfirlýsingu þar sem ásökunum var vísað á bug og að löndin myndu áfram styðja Úkraínumenn í „miskunnarlausu innrásarstríði Vladimir Pútíns“.