fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Fókus

Draumahúsið sem breyttist í martröð – Skuggalegur sannleikurinn á bak við Watcher-þættina

Fókus
Föstudaginn 21. október 2022 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skuggalega þáttaröðin The Watcher nýtur nú mikilla vinsælda á Netflix en í þáttunum er fylgst með fjölskyldu sem leggur allt að veði til að eignast draumahúsnæði sitt en byrja í kjölfarið að fá óhugnanleg bréf send frá dularfullum aðila sem kallar sig The Watcher. Þættirnir eru lauslega byggðir á alvöru lífsreynslu Broaddus-fjölskyldunnar. En hver er saga þeirrar fjölskyldu?

Lesendur sem hafa ekki séð þættina ættu kannski ekki að lesa lengra þar sem saga Broaddus-fjölskyldunnar gæti spillt söguþræði þáttanna, þó þættirnir taki sér allmikið skáldaleyfi. 

Fyrsta bréfið

Derek og Maria Broaddus keyptu árið 2014 húsið 657 Boulevard og ákváðu að ráðast í endurbætur áður en flutt yrði inn. Þremur dögum eftir að þau fengu afhent fengu þau dularfullt bréf.

Í bréfinu voru þau boðin velkomin í hverfið en svo tók bréfið skuggalega stefnu.

„657 Boulevard hefur verið viðfangsefni fjölskyldu minnar áratugum saman núna þegar það nálgast sinn 110 afmælisdag. Mér hefur verið falið að fylgjast með og bíða eftir seinni endurkomu þess. Afi minn fylgdist með húsinu á þriðja áratug síðustu aldar og faðir minn á sjöunda áratugnum. Nú er komið að mér. Veistu sögu hússins? Veistu hvað er leynist innan veggja 657 Boulevard? Hvers vegna eruð þið hér? Ég mun komast að því.“

Höfundur bréfsins virtist vita hvernig bíl Broaddus hjónin óku sem og að verktakar væru að vinna að endurbótum. Höfundinum virtist mislíka þetta og sagði: „Ég sé að þið hafið þegar fyllt 657 Boulevard af verktökum svo þið getið rústað því hvernig húsið átti að vera. Tsktsk, tsk… það var rangt af ykkur að gera. Þið viljið ekki gera 657 Boulevard ósátt.“

Í bréfinu var einnig minnst á börn Broaddus-hjónanna, en þau eru þrjú og voru á þessum tíma 5, 8 og 10 ára. „Þið eigið börn. Ég hef séð þau. Hingað til sýnast mér þau vera þrjú sem ég hef talið,“ skrifaði höfundur bréfsins og velti því líka fyrir sér hvort fleiri börn væru að leiðinni þar sem húsið þyrfti „ungt blóð“. Höfundur bréfsins velti einnig fyrir sér hvort að græðgi hefði drifið fjölskylduna til að kaupa húsið. Höfundur sagðist ætla að komast að nöfnun barnanna og hafa samband við þau.

„Hver er ég? Það eru hundruð bíla sem aka framhjá 657 Boulevard á degi hverjum. Kannski er ég inni í einum þeirra. Sjáið alla gluggana sem þið getið séð frá 657 Boulevard. Kannski er ég í einum þeirra. Horfið út um einn af fjölmörgum gluggum 657 Boulevard á allt fólkið sem röltir framhjá á hverjum degi. Kannski er ég eitt af þeim.“

Undir bréfið var svo skrifað „The Watcher“ eða „Áhorfandinn“.

Næsta bréf

Það var fjölskyldufaðirinn Derek Broaddus sem las bréfið og hann var einn er hann las það. Hann ráfaði um húsið og slökkti öll ljós svo enginn gæti horft inn og hringdi svo í lögregluna. Lögreglumaður kom á svæðið, las bréfið og sagði: „Hvað í fjandanum er þetta?“

Derek og kona hans, Maria, höfðu samband við fyrri eigendur og fréttu frá þeim að nokkrum dögum áður en þau fluttu hafi þau líka fengið bréf frá Áhorfandanum. En það hafi verið fyrsta bréfið sem þau hafi fengið af þessu tagi á þeim rúmu tveimur áratugum sem þau bjuggu í húsinu.

Lögreglan sagði að allir nágrannar lægu nú undir grun og bað Broaddus fjölskylduna að segja engum frá bréfinu.

Tveimur vikum eftir að fyrsta bréfið kom var Maria stödd í húsinu til að skoða málningarprufur. Það var hún sem fann næsta bréf. Þar sagði Áhorfandinn að hann hafi fylgst með verktökunum að verki og velti fyrir sér hvort þeir hefðu fundið það sem væri inni í veggjunum. Í bréfinu voru Derek og Maria ávörpuð með nafni, sem þó var skrifað vitlaust. Áhorfandinn montaði sig af því að vera nú búinn að komast að ýmsu um fjölskylduna, þá einkum um börn þeirra. Í bréfinu mátti finna gælunöfn barnanna og Áhorfandinn virtist vita aldur þeirra líka.

„657 Boulevard bíður spennt eftir að þið flytjið inn. Það hafa verið ár og tíð síðan ungt blóð réði göngum hússins. Hafið þið komist að öllum leyndarmálum þess? Mun unga blóðið leika sér í kjallaranum? Eða eru þau of hrædd til að fara þangað niður ein. Ég væri mjög hrætt ef ég væri þau. Það er mjög langt frá öðrum hlutum hússins. Ef þið væruð uppi mynduð þið aldrei heyra í þeim öskra. 

Munu þau sofa á loftinu? Eða ætlið þið öll að sofa á annari hæð? Hver er í svefnherberginu sem snýr út að götunni? Ég mun komast að því um leið og þið flytjið inn. Það mun hjálpa mér að vita hver er í hvaða svefnherbergi. Þá get ég betur gert áform.“ 

Áhorfandinn sagði að gluggarnir í húsinu gerðu honum kleift að fylgjast með fjölskyldunni. Hann gaf til kynna að hann hafi gert fyrri eigendum að flytja.

„657 Boulevard er starf mitt, líf mitt og þráhyggja. Og nú eruð þið það líka Braddus-fjölskylda. Velkomin til afraksturs græðgi ykkar. Græðgi er það sem færði síðustu þrjár fjölskyldur til 657 Boulevard og nú hefur græðgi fært ykkur til mín.

Eigið góðan innflutningsdag. Þið vitið að ég mun fylgjast með.“ 

Nágrannarnir grunaðir um græsku

Eftir að seinna bréfið kom hættu hjónin að taka börnin með sér í húsið. Þau voru eiginlega hætt við að flytja inn. Nokkrum vikum síðar kom þriðja bréfið.

„Hvert eruð þið farin? 657 Boulevard saknar ykkar“

Húsið var staðsett á vinsælum stað í Westfield hverfinu í New Jersey. Þegar fyrri eigendur ákváðu að selja rigndi yfir þau tilboðunum frá áhugasömum kaupendum og fór svo að húsið seldist fyrir töluvert meira en uppsett verð. Broaddus-hjónin töldu því fyrst að Áhorfandinn væri einhver sem væri súr fyrir að hafa misst af því að kaupa húsið.

Svo fór þeim að gruna að þetta væri einhver nágranni. Sérstaklega grunaði þeim Langford-fjölskylduna. Sú fjölskylda þótti frekar furðuleg. Einn fjölskyldumeðlimurinn, Michael þótti sérstaklega undarlegur og taldi Broaddus-fjölskyldan að hann væri líklega Áhorfandinn. Michael neitaði þó í yfirheyrslu hjá lögreglu og án játningar taldi lögreglan sig lítið geta gert.

Derek fékk málið á heilann. Hann setti upp myndavélar í húsinu og varði nóttunum samankipraður í myrkrinu að kanna hvort einhver væri að fylgjast með. „Maria hélt að ég væri orðinn galinn,“ sagði Derek í umfjöllun New York Magazine frá árinu 2018 – en á þeirri umfjöllun byggja Watcher þættirnir.

Fleiri bréf

Broaddus-fjölskyldan ákvað að ráða til sín sérfræðinga til að hjálpa við að upplýsa málið. Meðal annars fengu þau til liðs við sig einkaspæjara og fyrrverandi FBI-lögreglumenn. En ekkert gekk. Nokkrum mánuðum eftir kaupin var framkvæmdunum í húsinu lokið og tími komin til að flytja inn. Það gat fjölskyldan þó ekki hugsað sér að gera þar sem enn voru að berast bréf frá Áhorfandanum sem urðu sífellt skuggalegri.

„657 Boulevard er að snúast gegn mér. Það er að ásækja mig. Ég skil ekki hvers vegna. Hvaða álög lögðuð þið á það? Það var áður vinur minn en nú er það óvinur minn. Það er ég sem ræð 657 Boulevard. Það ræður mér ekki. Ég mun verjast slæmu hlutunum og bíða þess að það verði gott aftur. Það mun ekki refsa mér. Ég mun rísa aftur. Ég verð þolinmóður og mun bíða þess að þetta gangi yfir og bíða þess að þið komið með unga blóðið aftur til mín. 657 þarf ungt blóð. Það þarf ykkur. Komið aftur. Leyfið unga blóðinu að leika sér aftur eins og ég gerði eitt sinn. Leyfði unga blóðinu að gista í 657 Boulevard. Hættið að breyta því og látið það í friði.“ 

Þau upplifðu mikinn kvíða. Derek varð þunglyndur og Maria glímdi við áfallastreitu. Sex mánuðum eftir að bréfin hófu að berast ákvað fjölskyldan að selja 657 Boulevard. Fyrst reyndu þau að selja það með gróða, vegna endurbótanna sem þau höfðu ráðist í, en sögusagnir voru þegar farnar að ganga um hvers vegna húsið stóð tómt. Þau ákváðu líka að upplýsa mögulega kaupendur að hluta til um bréfin. Tilboðin sem bárust voru langt undir uppsettu verði.

Reyndu að kæra fyrri eigendur

Ári eftir að þau keyptu húsið reyndu þau að kæra fyrri eigendur fyrir að hafa ekki sagt þeim frá bréfinu sem þeim hafði borist. Blaðamaður á svæðinu fékk veður af kærunni, sem innihélt brot úr bréfum Áhorfandans, og birti frétt um það. Fréttin fór á flug í netheimum og bílar frá fréttastofum sátu fyrir 657 Boulevard til að reyna að ná viðtali við hjónin. Hjónin fengu meira en 300 beiðnir um viðtöl en að ráðum almannatengils ákváðu þau að tjá sig ekki opinberlega til að hlífa börnum sínum.

Málið hafði vakið mikla athygli og gekk fjöldi kenninga um það hver gæti verið Áhorfandinn. Kenningar um að þetta væri reiður fasteignasali, verkefni í skapandi skrifum í gagnfræðaskóla, markaðssetning fyrir hryllingsmynd eða unglingar að skemmta sér. Sumir töldu jafnvel að Broaddus-fjölskyldan stæði sjálf að baki bréfunum.

Samfélagið í Westfield var á nálum. Rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum var beðinn um að taka málið til athugunar. Hann vissi að Michael Langford hefði verið grunaður í málinu. Hann hefði verið greindur með geðklofa sem ungur maður og ætti það til að hræða nýja íbúa í hverfinu með því að gera skrítna hluti á borð við að ganga inn í bakgarð þeirra eða gægjast inn um glugga húsa sem var verið að gera upp. En fólk sem þekkti til Michaels taldi hann ekki færan um að senda bréfin.

Rannsóknarlögreglumaður þessi, Chambliss, komst að því að DNA-rannsókn hafði verið gerð á einu umslaginu utan af bréfi Áhorfandans og niðurstaðan þeirrar rannsóknar benti til að Áhorfandinn væri kona.  Þ

Saksóknarar tilkynntu svo skyndilega Derek og Mariu að Langford fjölskyldan lægi ekki lengur undir grun – en vildu þó ekki skýra það út nánar.

Sendi líka bréf á aðra fjölskyldu

Broaddus-fjölskyldan ákvað þá aftur að taka málin í eigin hendur. Þau gengu um svæðið með mynd af handskrifuðu umslaginu frá Áhorfandanum í von um að einhver kannaðist við rithöndina.

Chambliss hafði líka uppi á ungri konu sem hafði stöðvað bifreið sína við 657 Boulevard, sú átti kærasta sem bjó í sömu götu og 657. Hún sagði Chambliss að kærastinn hennar hefði gaman að frekar myrkum tölvuleikjum þar á meðal leik þar sem hann lék persónu sem kallaðist „Áhorfandinn“. Kærastinn samþykkti að koma í viðtal í tvígang en mætti í hvorugt skiptið. Um þetta leiti hafði almenningur misst áhugan á málinu og því gafst Chambliss upp og fór að sinna öðrum verkefnum.

Enn gekk sú kenning að Broaddus-fjölskyldan stæði sjálf að baki bréfunum. Þau hefðu séð eftir því að kaupa hús sem þau hefðu ekki efni á og því ákveðið að setja á svið leikþátt til að sleppa við kaupin. Annað hvort það eða að Derek væri að reyna að fremja einhvers konar tryggingasvik. Eða þá að þau væru á höttunum eftir kvikmyndasamningi. Fannst mörgum undarlegt á á aðeins áratug hefði fjölskyldan farið úr frekar ódýru húsnæði upp í rándýrt húsnæði og þar að auki endurfjármagnað húsnæðislán sín. Hvers vegna voru þau lík aað ráðast í endurbætur á húsi sem þau fluttu aldrei inn í. Lögreglan hafði þó samprófað erfðaefni Maríu við erfðaefnið frá umslaginu og það var ekki það sama.

Hvað átti að gera við húsið?

Broaddus-fjölskyldan þurfti enn að finna út hvað þau gætu gert við húsið. Málaferlin gegn fyrri eigendum væru enn í gangi en þótti ekki líklegt til árangurs. Vorið 2016 reyndu þau aftur að selja. En alltaf þegar þau sýndi væntanlegum kaupendum bréfin – hættu þeir við.

Þau reyndu þá að fá leyfi til að jafna húsið við jörðu og skipta lóðinni í tvennt. Hverfið mótmælti þeim ráðstöðunum harðlega og gek það ekki eftir.

Loks tókst þeim að fá leigjendur sem óttuðust ekki Áhorfandann en létu þó setja ákvæði í leigusamninginn um að ef bréfin færu aftur að berasta þá mætti rifta samningnum. Tveimur vikum eftir að leigjendurnir fluttu inn kom nýtt bréf.

Af bréfin var ljóst að Áhorfandinn hafði fylgst vel með framvindu mála.

„Viljið þið vita hver Áhorfandinn er? Snúið ykkur við hálfvitar. Kannski hafið þið jafnvel talað við mig, einn af þessum svokölluðu nágrönnum sem hefur engan hugmynd um hver Áhorfandinn er. Kannski vitið þið það og eruð of hrædd til að segja nokkrum. Gott hjá ykkur.“

Áhorfandinn sagðist hafa fylgst með Derek reyna að upplýsa málið. „Ég fylgdist með þér fylgjast með úr myrku húsinu að reyna að finna mig. Sjónaukar og kíkir eru frábærar uppfinningar.“

Leigjandinn sem betur fer samþykkti að rifta ekki samningnum svo lengi sem Broaddus-fjölskyldan setti upp eftirlitsmyndavélar í kringum húsið.

Í bréfinu kom fram að hefnd Áhorfandans gæti falist í „bílslysi. Kannski eldsvoða. Kannski eitthvað einfalt eins og væg veikindi sem virðast aldrei hverfa en gera ykkur vel dag eftir dag eftir dag. Kannski dularfullur dauðdagi gæludýrs. Ástvinir sem skyndilega deyja. Flugvéla-, bíla- og hjólaslys. Bein brotnar.“

Síðan fór öllu hverfinu að berast nafnlaus bréf, sérstaklega frá þeim sem höfðu gagnrýnt Broaddus-fjölskylduna. Derek viðurkenndi síðar að hann skrifaði þau bréf sjálfur í reiði. Hann væri úrræðalaus og fólk væri að saka fjölskyldu hans um hitt og þetta án þess að hafa nokkuð fyrir sér.

Að lokum tókst þeim að selja húsið árið 2019 fyrir þó nokkuð tap. Öll þau ár sem þau höfðu átt húsið höfðu þau borgað fasteignagjöld og af lánunum. Þegar þau seldu Netflix réttinn að sögu sinni náðu þau ekki einu sinni að fá til baka það sem þau töpuðu svo þau verða seint sökuð um að hafa grætt á þessu skuggalega ævintýri. Þau hafa nú undanfarið barist fyrir því að fá aftur bréfin afhent frá lögreglunni og sömuleiðis niðurstöður úr erfðafræðilegri rannsókn en þau vilja samkeyra þær niðurstöður við gagnagrunna erfðaefnis sem margir hafa nýtt til að finna týnda ættingja. Lögreglan hefur þó hingað til neitað beiðnum þeirra.

Heimild: Grein The New York Magazine og uppfærsla frá blaðamanni upprunalegu greinarinnar frá því í október á þessu ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sýndi ótrúlega danstakta í Leifsstöð

Sýndi ótrúlega danstakta í Leifsstöð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – „Gott að vera tengdur innra barninu í sér“

Vikan á Instagram – „Gott að vera tengdur innra barninu í sér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vinsæll lendingarstaður Íslendinga kosinn versti flugvöllur Bretlands

Vinsæll lendingarstaður Íslendinga kosinn versti flugvöllur Bretlands
Fókus
Fyrir 2 dögum

Netverjar hneykslaðir eftir ráð áhrifavalds um hvernig ætti spara í morgunverðarhlaðborðum hótela

Netverjar hneykslaðir eftir ráð áhrifavalds um hvernig ætti spara í morgunverðarhlaðborðum hótela
Fókus
Fyrir 3 dögum

Julia með stórskemmtilegt myndband frá Íslandi – „I Wonder What Björk Is Doing Right Now. Kría!“

Julia með stórskemmtilegt myndband frá Íslandi – „I Wonder What Björk Is Doing Right Now. Kría!“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan nær hámarki í dag – myndasyrpa frá föstudagskvöldinu

Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan nær hámarki í dag – myndasyrpa frá föstudagskvöldinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Er Loch Ness-skrímslið til í raun og veru?

Er Loch Ness-skrímslið til í raun og veru?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Árni og Guðrún um reynslu sína af kynlífsklúbbum – „Hún límdist við mig eins og kolkrabbi“

Árni og Guðrún um reynslu sína af kynlífsklúbbum – „Hún límdist við mig eins og kolkrabbi“