Í fyrsta þætti nýrrar Útkallsseríu sem hefst á Hringbraut í kvöld ræðir Óttar Sveinsson við Eddu Andrésdóttur, sjónvarps- og fjölmiðlakonu, og Gunnar Andrésson ljósmyndara um þann atburð sem þau nefna bæði hápunkt hálfrar aldar fréttamannaferils þeirra – eldgosið á Heimaey.
Edda og Gunnar opna sig um óttann, óvissuna, vikurfallið, eldsvoðana, hraunflæðið og þá einstöku upplifun að vera að fara til Heimaeyjar á meðan um 5 þúsund manns eru að flýja upp á land með fiskibátum og flugvélum.
„Maður var komin þarna inn í aðstæður sem voru algjörlega einstæðar, engu líkar. Við þekktum eldgos en ekkert þessu líkt,“ segir Edda í þætti kvöldsins en hún flaug til Eyja fyrstu gosnóttina og var blaðamaður Vísis. „Ég var bara hræddur – hvað var ég að gera þarna þegar allir voru að yfirgefa eyna?“ segir Gunnar.
Hluti af þjóðarsálinni
Óttar ákvað að slá til í byrjun árs þegar honum var boðið að gera sjónvarpsseríu á Hringbraut. Fimmtán þættir hafa verið sýndir til þessa á árinu. „Ég er að tala við söguhetjurnar úr bókunum mínum. Fólkið í landinu, slys og bjarganir – þjóðina sem er í stöðugri baráttu við náttúruöflin. Ég ræði líka við fólk tengdum atburðunum í bókunum eins og Eddu og Gunnar í þættinum í kvöld sem er fyrri þátturinn af tveimur.“
Útkallsbækur Óttars eru orðnar 29 – hann hefur gefið út eina bók á hverju ári frá árinu 1994. Allar hafa þær verið í efstu sætum metsölulistanna. „Jú, það má kannski segja að bækurnar séu orðnar hluti af þjóðarsálinni – fólk segir gjarnan við mig að það fái Útkallsbók í jólagjöf á hverju ári eða það þekki einhvern sem er í þeirri stöðu. Mér þykir mjög vænt um hvað efnið hefur haft sterka skírskotun til fólksins í landinu.“
Upplifði kafbátaárás og tvö flugslys
Ný Útkallsbók kemur úr prentun í næstu viku og heitir „Útkall – SOS, erum á lífi!“ Hún er helguð minningu Dagfinns Stefánssonar flugmanns (f. 1925 – d. 2019) sem upplifði það þegar kafbátur sökkti Goðafossi við bæjardyr Reykjavíkur árið 1944 en Stefán, faðir hans, bjargaðist þá naumlega. Hann lenti svo sjálfur í því þegar Geysir – besta farþegaflugvél Íslendinga á þeim tíma – brotlenti á Vatnajökli. Ekkert spurðist þá til Dagfinns og fimm félaga hans í fimm daga. Fólkið var í raun talið af og minningargreinar höfðu verið skrifaðar þegar neyðarkall barst: TF-RVC (Geysir) All alive, position unknown. Áhöfn Geysis vissi ekki hvar hún var.
Dagfinnur upplifði svo fjórða stærsta flugslys sögunnar árið 1978 þegar Loftleiðavélin Leifur Eiríksson fórst á Sri Lanka – Dagfinnur var að fara að taka við vélinni og átti þá sína erfiðustu daga í lífinu. 183 fórust, þar af 8 Íslendingar.
Útkall hefst klukkan 19.30 á Hringbraut í kvöld og er þátturinn endursýndur klukkan 21.30.