Stóru bankarnir þrír, Íslandsbanki, Landsbankinn, og Arion-banki, högnuðust samtals um 32,2 milljarða króna á fyrri hluta ársins 2022. Í uppgjöri Íslandsbanka fyrir annan ársfjórðung ársins 2022 kemur fram að arðsemi eigin fjár bankans hafi verið meiri en greinendur höfðu spáð fyrir og einnig yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Bankinn segir í tilkynningu sinni til Kauphallar að helstu ástæðurnar fyrir þessum hagnaði séu sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæð virðisbreyting útlána.
Mörgum finnst það skjóta skökku við að bankarnir græði tugi milljarða á meðan skuldsett heimili í landinu þurfa að borga meira í hverjum mánuði vegna vaxtahækkana og verðbólgu.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir í samtali við DV um málið að það sé gömul saga að bankarnir komi út sem sigurvegarar í sveifluhagkerfi eins og er hér á landi. „Þrátt fyrir það að verðbólgan hér sé á pari við það sem gengur og gerist í Evrópu þá erum við með langhæstu stýrivexti af þeim löndum sem við viljum vera að bera okkur saman við. Við vorum að fara úr kannski sambærilegum vöxtum og upp í hæstu hæðir á undraskömmum tíma sem náttúrulega kemur verst niður á skuldsettum heimilum, sem erum við flest,“ segir Breki.
„Þessi verðbólga og þessar verðhækkanir sem hafa orðið nú þegar koma verst niður á þeim sem síst skyldi. Fólk sem þegar hefur átt erfitt með að ná endum saman sér fram á ennþá verri tíma. Það er það sem verðbólga og svona sveifluhagkerfi gerir, það færir fjármuni á milli í hagkerfinu á ósanngjarnan og oft tilviljanakenndan hátt. Það er eitthvað sem við verðum að streitast á móti.“
Neytendasamtökin standa þessa stundina í dómsmálum við stóru bankana þrjá vegna vaxtabreytinga á lánum. Samtökin telja að umræddar breytingar á vöxtum séu ólöglegar. „Þeir eru að tala um fasta vexti í þrjú ár og svo fara þeir að breytast, það eru margir með lán með föstum vöxtum sem breytast eftir þrjú ár en það eru í raun og veru breytileg lán. Þessi lán teljum við að séu ólögleg og það hafa fallið hæstaréttardómar og Evrópudómar um það, öll lán sem eru með breytiskilmálum eru breytileg lán. Það er ekki hægt að kalla þetta lán með föstum vöxtum nema það séu fastir vextir út lántímann. Það eru einmitt þessi lán sem við erum í málsókn út af,“ segir hann.
„Við sjáum það bara strax að núna þegar vextirnir hækka þá eru þeir mjög snöggir að gíra sig upp og hækka vexti en það þurfti öskur og óp ofan úr svörtu loftum Seðlabankans til að lækka þá. Þegar Seðlabankinn var að hefja vaxtalækkunarferlið fyrir tveimur árum þá tók það marga mánuði áður en bankarnir fóru að lækka vexti en nú eru þeir alveg ótrúlega fljótir að hækka þá. Þeir segja það líka sjálfir að þeir hagnist á þessu.“
Hægt er að finna frekari upplýsingar um Vaxtamálið á heimasíðu Neytendasamtakanna.
Aðspurður um það hvort það sé eðlilegt að bankarnir skili miklum hagnaði á tímum sem þessum segir Breki að það sé erfitt að segja til um hvað sé eðlilegt. „Eins og þjóðskáldið sagði einhvern tímann, það sem Bubba Morthens þykir gott og gilt þykir Hauki frænda vera heldur tryllt. En í svona ástandi verðum við að gera kröfu á að við öll stöndum saman og sýnum aðhald. Það eru ekki bara vextirnir sem eru að skila miklu til bankanna heldur líka alls kyns gjöld og þóknanir,“ segir hann.
„Við hljótum að gera kröfu á að bankarnir sýni sömu ráðdeild og dragi úr sínum kröfum eins og við vitum að bankarnir munu gera við sína starfsmenn í haust þegar þeir fara að krefjast hærri launa. Þetta eru bara tvær hliðar á sama peningnum, laun og gjöld, þegar gjöld hækka þurfa laun að hækka og þegar laun hækka þurfa gjöld að hækka. Þetta er eins og svarti pétur og enginn vill sitja uppi með svarta pétur. Svoleiðis hagkerfi, svona höfrungahlaup eins og það er kallað, þegar það er komin keppni um hver er fljótastur að hækka þá erum við í vondum málum. Þess vegna verðum við öll að hemja þessa vél sem virðist vera komin í gang, þessa vél sem verðbólgan er. Þar eru bankarnir alls ekki undanskyldir og ættu eiginlega að ganga á undan með góðu fordæmi.“