fbpx
Miðvikudagur 14.maí 2025
Fréttir

„Við fengum óvænt símtal á skrifstofu Niceair 10 mínútum eftir flugtak“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 10. júní 2022 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flugfélagið  Niceair tilkynnti í dag að öllum fyrirhuguðum flugum til Englands í júní væri aflýst í ljósi vandræða.  Öllum farþegum verður boðin endurgreiðsla og aðstoð við að komast á áfangastað erlendis eða heim aftur.

Virtist þetta koma sumum viðskiptavina félagsins í opna skjöldu, þá einkum sökum þess að þeir hafi frétt í gegnum fréttamiðla að flugi þeirra hafi verið aflýst, en ekki frá flugfélaginu sjálfu.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, hefur nú birt yfirlýsingu á Facebook þar sem hann skýrir út málið.

Þar segir að skömmu eftir flugtak í fyrsta flugi félagsins til Bretlands hafi félaginu verið tilkynnt að leyfismál væru ekki á hreinu. Ekki hafi félagið fengið almennilegar skýringar á því hvernig á því stendur, en megi rekja málið til Brexit og flækjustigs alþjóðlegra samninga. Niceair hafi því ákveðið að fella niður öll Bretlandsflug í júní í varúðarskyni á meðan unnið er að lausn í málinu.

Þorvaldur segist harma að félagið hafi valdið röskun á högum fólks. Ákvörðun hafi verið tekin um að koma tíðindunum sem fyrst til viðskiptavina og sú leið farin að senda út fréttatilkynningu áður en haft var beint samband við viðskiptavini. Segist Þorvaldur skilja að einhverjir geti verið ósáttir við þá ákvörðun.

Að öðru leyti hafi fyrsta vika félagsins gengið mjög vel.

Yfirlýsingin í heild sinni: 

Mótvindur og meðvindur…

Við fengum óvænt símtal á skrifstofu Niceair 10 mínútum eftir flugtak í jómfrúarflugi félagsins til Bretlands fyrir viku. Í símtalinu var okkur tjáð að við fengjum ekki að taka farþega með til Íslands í því flugi þar sem leyfismál væru ekki á hreinu. Þetta kom flatt upp á okkur þar sem þessi mál höfðu aldrei borið á góma í þriggja mánaða ferli með breskum yfirvöldum og ekkert skriflegt hafði borist félaginu.

Við höfum unnið ötullega að því að fá skýrt hvað kunni að vera að, en við fengum óljósa mynd af því framan af. Síðar fengum við skýringu sem ekki er endilega sameiginlegur skilningur á.

Öllum farþegum var komið á áfangastað engu að síður.

Við höfum unnið áfram að útfærslum að lausnum, en með síðustu lausnir á borðinu í gærkveldi fengum við þau svör að nú væri að koma helgi og ekki væri tími til að vinna öll mál á svo stuttum tíma.

Þau skilaboð fengum við seint í gærkveldi.

Starfsfólk Niceair hefur unnið þrekvirki í að koma öllum farþegum sem bókaðir voru og þáðu hjálp áfram á áfangastað eftir öðrum leiðum, en við urðum að grípa til þess óyndisúrræðis að aflýsa flugum út júní. Þetta gerum við í varúðarskyni, en við vonumst vitanlega til þess að leysa þessi mál innan þess tíma.

Við höfum notið góðrar hjálpar íslenskra stjórnvalda, Utanríkisráðuneytis og Samgöngustofu, auk þess sem breska sendiráðið hafði góða aðkomu að málinu.

Ég harma að hafa valdið röskun á högum fólks sem sannarlega ætlar sér að styðja við bakið á okkur en hér lendum við í aðstæðum sem rekja má til Brexit og flækjustigs alþjóðasamninga sem aðild eiga að þrjú þjóðríki og tvö viðskiptabandalög.

Við þurftum að koma þessum tíðindum sem fyrst til sem flestra og því var send út fréttatilkynning um hádegisbil. Ekki var búið að senda aflýsingu á flugi á mánudag til farþega og eru einhverjir ósáttir við það, sem ég skil vel, en þetta var mat okkar að ná til sem flestra fyrst.

Að öllu öðru leyti hefur gengið mjög vel þessa fyrstu viku. Flug til Kaupmannahafnar og Tenerife hafa gengið mjög vel og er bókunarstaða góð út sumarið.

Ég þakka góðar kveðjur, stuðning og skilning og harma þá röskun sem orðið hefur.

Áfram og upp!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Ásgerður Jóna sár út í Ingu Sæland: „Í þriðja sam­tal­inu sagðist hún ekk­ert geta gert“

Ásgerður Jóna sár út í Ingu Sæland: „Í þriðja sam­tal­inu sagðist hún ekk­ert geta gert“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

VÆB áfram í Eurovision!

VÆB áfram í Eurovision!
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sigurbjörg er enn á götunni og engin lausn í sjónmáli

Sigurbjörg er enn á götunni og engin lausn í sjónmáli