fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Sport

Byrjaði allt með medalíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukona í golfi, stefnir á LTE Evrópumótaröðina

Ritstjórn DV
Föstudaginn 15. janúar 2016 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur undanfarin ár verið einn fremsti kylfingur landsins, ákveðið leynivopn. Hún afsalaði sér atvinnumannsréttinum í september 2014, nokkrum mánuðum eftir útskrift úr háskóla. Á fyrsta árinu sínu sem áhugamaður komst hún í gegnum niðurskurð á tólf af fimmtán mótum. Í desember síðastliðnum tryggði hún sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni í golfi með frábærum árangri á úrtökumóti í Marokkó. Hún ræddi við Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur um sveifluna, ferðalögin á húsbílnum og möguleikann á að verða jafnvel fyrsti íslenski kylfingurinn sem keppir á Ólympíuleikum.


„Þetta byrjaði allt með medalíu,“ segir Ólafía Þórunn með blik í auga. Það voru bræður Ólafíu og foreldrar sem drógu hana á golfvöllinn í Mosfellsbæ þegar hún var krakki. Fyrst var hún óþolinmóð úti á vellinum. „Ég vildi sjá árangur strax. Hinir voru miklu betri en ég, þess vegna fannst mér golf ekkert svakalega skemmtilegt svona í byrjun.“ En það átti allt eftir að breytast þegar hún vann sinn fyrsta verðlaunapening á þriðjudagsmóti barna. Strax á næsta móti vann hún annan og þá var ekki aftur snúið. Það hafði vaknað innra með henni metnaður og áhugi sem átti eftir að verða driffjöður og gera hana að atvinnumanni.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Fjölskyldusportið varð að atvinnumennsku

Golfið er líka fjölskyldusport, foreldrar hennar og bræður eru miklir golfarar og hefur annar bróðir hennar meðal annars spilað með landsliðinu í golfi og það er því góður stuðningur sem hún fær heima fyrir. Golfklúbbur Reykjavíkur er uppeldisfélag hennar, en eftir stúdentspróf stundaði hún nám og golfíþróttina við Wake Forest-háskólann í Norður-Karólínu þar sem hún lærði hagfræði og frumkvöðlafræði. „Bróðir minn hafði verið við nám í Norður-Karólínu. Mér fannst ég þekkja það, ég hafði heimsótt hann og fannst þetta svæði vera góður staður. Ég ákvað þess vegna að leita mér að námi á þeim slóðum,“ segir hún. Henni gekk vel í skólanum og í golfinu.
„Ég ákvað á lokaári mínu að ég ætlaði að gerast atvinnumaður. Ég útskrifaðist um vorið, fór svo á heimsmeistaramót áhugamanna í Japan. Eftir það skilaði ég svo áhugamannaréttindunum og gerðist atvinnumaður, í september 2014. Ég var að bíða eftir því að komast til Japan til að geta loksins orðið atvinnumaður.“

Bjóst alveg eins við klúðri

Strax eftir heimsmeistaramótið var fyrsta atvinnumannamótið á dagskrá.
„Mér gekk svo ótrúlega vel. Ég var einu undir pari í heildina á mótinu, sem var eiginlega ótrúlegt að mínu mati. Ég fór á mótið með engar væntingar, bjóst eiginlega frekar við því að þetta myndi ekki ganga upp svona í byrjun. En þetta var svo í fimmta skiptið á ævinni sem ég spilaði undir pari í heildina,“ segir hún.

Mér gekk svo ótrúlega vel.

Atvinnumannaferillinn fór því mjög vel af stað, en framtíðin veltur á ýmsu. „Maður þarf að hafa gaman af þessu, sem ég geri. En svo þarf maður líka að hafa efni á þessu. Ég þarf að hafa góða styrktaraðila til þess að geta haldið áfram,“ segir hún.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

LET Evrópumótaröðin mun þýða ferðalög þvers og kruss um heiminn. Mótin eru haldin mun víðar en bara í Evrópu, næstu verða haldin í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Þaðan liggur leiðin til Kína, aftur til Marokkó, til Tyrklands, Skotlands, Bretlands og jafnvel Indlands. Þar að auki horfir hún jafnvel til Ríó, en í ár verður golf keppnisíþrótt á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn. Hún þarf að fara hratt upp listann til þess að komast þangað. Hún svarar yfirvegað að það séu um 350 sæti sem þurfi að klífa til þess. „En árangur á einu eða tveimur sterkum mótum gæti komið mér þangað. Maður getur flogið upp listann,“ segir hún einbeitt. „Það væri draumur að komast þangað, en ég tek þetta bara eitt skref í einu,“ segir hún.

Kostnaðurinn við þetta ár, á LET mótaröðinni, getur hlaupið á fjórtán milljónum. Ólafía er í mikilli fjáröflun af þeim sökum, hefur meðal annars hannað mynd með hvatningarorðum sem hún selur til að fjármagna ferðalögin. Hún er einnig að leita sér að styrktaraðilum sem geta aðstoðað hana og nýtur góðs af styrktarsjóði Golfsambands Íslands, Forskoti, og segist mjög þakklát fyrir það.

Útilegustemning í húsbílnum

Hún kynntist unnusta sínum, Thomas Bojanowski, í námi í Bandaríkjunum. Þó að hann sé ekki golfari, hefur hann verið henni innan handar sem kylfuberi á mótum. Eftir námið og atvinnumannaleyfið lá leið þeirra til Þýskalands.

Það var ótrúlega skemmtilegt. Svona útilegustemning hjá okkur Thomas, við gátum sparað smá pening í leiðinni.

Þar æfir Ólafía með stuðningi heiman frá, en þjálfarinn er búsettur hér á landi.

Frá Þýskalandi reynist líka auðveldara, og ódýrara, að ferðast en frá Íslandi. Ólafía fór til að mynda keyrandi á fjölmörg mót í fyrra, á húsbíl sem tengdaforeldrar hennar lánuðu henni. Með því að fara á húsbílnum var hægt að leysa praktíska hluti eins og gistingu og ferðamáta á einfaldari hátt en hefði verið hægt frá Íslandi. „Það var ótrúlega skemmtilegt. Svona útilegustemning hjá okkur Thomas, við gátum sparað smá pening í leiðinni,“ segir hún. Hún og móðir hennar fóru einnig keyrandi saman um Skandinavíu. „Mamma ákvað að koma og ferðast með mér, þegar það hafði verið frekar leiðinlegt veður hérna heima,“ segir hún og hlær. „Við leigðum bílaleigubíl og keyrðum á hvert mótið á fætur öðru.“ Fyrir vikið hefur Ólafía ekki þurft að ferðast mikið ein. „Það er mjög gott,“ segir hún.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Allir vildu hjálpa

Þegar atvinnumannsferillinn var að hefjast reyndist frekar erfitt að átta sig á því frá hverjum hún ætti að fá ráðleggingar, en fjölmargir vildu aðstoða hana, vera til staðar fyrir hana og oftar en ekki stangaðist það allt á. „Ég var í smá tíma að átta mig á því hvernig væri best að fara að þessu. Það var svo margt fólk sem vildi aðstoða mig, þjálfa mig. Ég þurfti að sía upplýsingarnar betur, það kom tímabil þar sem mér leið ekki vel með golfið mitt. Svo ákvað ég að bakka aðeins, taka mér pásu, hugsa mig um og ákveða hver það væri sem best væri að fá til þess að hjálpa mér. Þetta gekk ekki svona,“ segir hún og bætir við: „Ég varð ringluð.“ Mikilvægast var að ná að finna rétta taktinn.

„Það koma auðvitað tímabil hjá öllum þar sem maður dettur niður andlega, finnur fyrir sjálfsefa og það eru erfiðir tímar. Ég þarf að vinna í sjálfstraustinu. Það kemur enn fyrir að ég fyllist miklum efa, þrátt fyrir að ég hafi allt til að bera. Ég fann fyrir þessum sjálfsefa þegar ég var að byrja að keppa sem atvinnumaður. En þá er bara að vinna í því og efla sjálfstraustið,“ segir hún ákveðin.

En þá er bara að vinna í því og efla sjálfstraustið.

Nú hefur verkefnaskiptingin orðið skýrari og hlutirnir fyrir vikið eru einfaldari.
„Þetta er betra svona,“ segir hún en hún hefur þjálfara hérna heima og sér því alfarið um að æfa sig sjálf úti. Hún notar myndbandsupptökur til þess að sjá í hvernig formi hún er, hvað þurfi að bæta og hverju að breyta. Hún sendir þær svo til Íslands ef frekari aðstoðar er þörf.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Mikill undirbúningur skilaði sér

Fyrir mótið í Marokkó naut hún aðstoðar aðila sem hjálpuðu henni að koma andlegu hliðinni og fókusnum í gott lag og svo fékk hún í fyrsta sinn kylfubera (e. caddy), sem var sérhæfður í slíku. „Ég held að það hafi skipt alveg ótrúlega miklu máli,“ segir hún. Hún hafði verið í mælingum fyrir kylfur þegar hún hitti eldri atvinnumann sem kom að máli við hana um mótið í Marokkó. Ólafía sagðist ætla að fá kærastann sinn til þess að aðstoða sig á vellinum. „Thomas er svo rólegur og lætur mér líða vel á vellinum, þó að hann sé ekki golfari,“ sagði Ólafía við manninn en hann fórnaði höndum og sagði það vera gríðarlega mikilvægt að fá atvinnukylfubera. Hann gæti aðstoðað hana, fækkað höggunum og orðið til þess að hún næði betri árangri.

Maðurinn benti henni á kylfubera sem hann þekkti til og taldi geta hentað Ólafíu. Kylfuberinn átti eftir að reynast henni vel, þau náðu vel saman á vellinum. „Hann hjálpar manni við að taka réttar ákvarðanir og maður getur verið öruggur um að maður sé í raun og veru að taka réttar ákvarðanir. Í staðinn fyrir að efast, þá verður hvert einasta högg framkvæmt af miklu öryggi,“ segir hún. Kylfuberinn ætlar að aðstoða Ólafíu í vetur, þegar hann fær tækifæri til og mótadagskrá þeirra nær saman. Hann hefur þegar skuldbundið sig til að aðstoða annan mann á tímabilinu, en þegar mótin skarast ekki er möguleiki á að hann geti fylgt Ólafíu eftir á vellinum. „Þetta skipti svo ótrúlega miklu máli. Ég var þarna í Marokkó til þess að reyna að komast á LET mótaröðina. Það er ekki eitthvað sem maður gerir mjög oft. Ég varð að gefa sjálfri mér besta séns sem ég gat,“ segir hún – sem hún og gerði. Það fór líka allt á besta veg, undirbúningurinn skilaði sér og hún flaug inn á LET.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Ætlar að standa sig

Æfingarnar taka upp mikinn tíma hjá henni, en aðstæður til þeirra eru misjafnar. Fyrir mótið í Marokkó fór hún einnig í æfingabúðir. Þar voru stífar æfingar, frá morgni til kvölds, auk líkamsræktar og hugarleikfimi. „Mikið af tímanum fer líka í að leita uppi hagstætt verð á flugi, gistingu, skoða næstu mót og setja upp leikáætlun,“ segir hún en hún sér alfarið sjálf um dagskrána sína. Næsta mót verður á Nýja-Sjálandi og er hún að bíða eftir því að fá að vita hvort hún hafi náð inn á mótið. Það fer eftir því hversu margir kylfingar skrá sig, en Ólafía gæti fengið upplýsingar um það mjög seint, jafnvel ekki fyrr en viku fyrir mót. Þá þarf að hafa hraðar hendur enda mikilvægt að ná að lenda vel, ná að vinna upp tímamismuninn og koma sér í stellingar fyrir mótið.

„Það fer allt eftir því hverjir ætla að keppa á hverju móti. Ég kemst ekki inn á þau öll, en vonandi sem flest. Kylfingunum er skipt niður í hópa, sumir fá alltaf aðgang að mótunum en ég er í áttunda flokki og þarf því að sýna smá þolinmæði og sjá hvað setur,“ segir hún en kveðst ekkert áhyggjufull. „Ég bíð bara og vona og ætla að standa mig vel á þeim mótum sem ég kemst á,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Besta deildin: Víkingar svöruðu vel fyrir sig gegn KA – Danijel með tvennu

Besta deildin: Víkingar svöruðu vel fyrir sig gegn KA – Danijel með tvennu
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Orri Steinn stórkostlegur og tryggði FCK sigurinn: Kom inná og skoraði þrennu – Sjáðu öll mörkin

Orri Steinn stórkostlegur og tryggði FCK sigurinn: Kom inná og skoraði þrennu – Sjáðu öll mörkin
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Besta deildin: Tvö rauð spjöld á loft er FH vann á Akranesi – Vestri komið með sex stig

Besta deildin: Tvö rauð spjöld á loft er FH vann á Akranesi – Vestri komið með sex stig
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri

Hákon fékk mínútur í gríðarlega mikilvægum sigri
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Byrjunarlið Tottenham og Arsenal – Mikið undir í stórleiknum

Byrjunarlið Tottenham og Arsenal – Mikið undir í stórleiknum
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“

Telur að rifrildið umtalaða í gær tali sínu máli – ,,Sannfærður um að hann sé á förum“