fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
433Sport

Ótrúlegt lífshlaup eina Íslendingsins sem hefur skorað fyrir Manchester United – ,,Ætlaði ekki að trúa þessu“

Helgi Sigurðsson
Sunnudaginn 28. nóvember 2021 13:00

Róbert Jack ræddi við Sir Matt Busby (á myndinni) til þess að reyna að koma Axel að hjá Man Utd. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Axel Rúnar Guðmundsson, fyrrum bóndi, hefur átt viðburðaríka ævi. Hann komst ekki að því fyrr en á táningsaldri að hann væri ættleiddur, var lagður í einelti sem barn, glímdi við áfengisvanda og sjálfsvígshugsanir. Hann lék þá með Manchester United og skoraði fyrir félagið. Hann var gestur í þættinum Sunnudagssögur á Rás 2.

Axel var alinn upp af þeim Huldu Ragsnarsdóttur og Guðmundi Axelssyni. Árið 1977, þegar hann var 14 ára gamall, var honum tjáð af Teiti Gylfasyni, vinnumanni á heimilinu, að foreldrar hans væru honum ekki blóðskyldir. Axel hafði grunað þetta.

„Ég verð að segja þér svolítið, þó það muni hafa slæmar afleiðingar og ég verð sennilega sendur suður með rútunni á morgun. En ég verð að segja þér að þau eru ekki foreldrar þínir,“ sagði Teitur við Axel. Teitur hafði ekki mátt segja honum frá þessu en freistaðist til.

Axel komst síðar að því að blóðmóðir hans væri frænka hans, Fjóla Ingþórsdóttir. Hún og fósturmóðir Axels voru þremenningar. Hann kynntist blóðföður sínum svo 50 ára gamall en á í góðu sambandi við þau bæði í dag.

,,Ég skildi ekki hvers vegna krakkarnir voru að segja þetta“

Axel hafði grunað frá 7 ára aldri að Hulda og Guðmundur væru ekki blóðforeldrar hans, frá því þegar krakkar í skólanum hans stríddu honum og sögðu foreldra hans ekki vera skylda honum.

„Ég skildi ekki hvers vegna krakkarnir voru að segja þetta, ég fór bara í vörn og gat ekki sagt neitt. Held ég hafi bara farið að gráta,“ sagði Axel. „Kennarinn var búinn að hrista mig til, segja mér að hætta þessu væli og leika með krökkunum. Þetta var mjög erfitt og byrjaði strax þarna, blessaður kvíðinn og strax á öðrum degi vildi ég ekki fara í skólann.“

Síðar velti hann fyrir sér hvers vegna gæti staðið á því að faðir hans og bróðursonur væru líkir hvorum öðrum en Axel ekki. „Ég fór í myndaalbúm, náði í mynd af pabba og fór svo fyrir framan spegilinn inni á baði. Horfði í spegilmynd mína, horfði svo á myndina og fór bara að gráta. Ég hugsaði: Krakkarnir eru að segja satt. Þetta var mikið niðurbrot. Þetta fór í svarta kassann, ég byrjaði snemma að safna í hann. Ef það voru erfiðleikar, eða eitthvað, var ekki minnst á það og mátti alls ekki bera svona á borð. Og alls ekki út fyrir heimilið.“

Róbert Jack reyndist honum vel

Skólagangan var afar erfið fyrir Axel. Honum var strítt, til dæmis hent inn í fatakompu reglulega. Hann fór svo að skaða sig á tólfta ári. „Þá var mjög erfið vika. Ég hleyp úr tómstundaherbergi inn ganginn á heimavistinni og inn í herbergi þar sem ég var og fæ mér vatnsglas. Nema ég missi glasið sem brotnar í vaskinum. Það gerðist eitthvað. Þetta var sennilega örvænting og ákall á hjálp, en ég sker mig á púls á vinstri hendi. Það fossar blóð úti um allt.“

Skólastjóri sá til þess að Axel kæmist undir læknishendur. Axel telur að læknirinn sem hafi tekið á móti honum hafi verið Kári Stefánsson. Hann hringdi í séra Róbert Jack. Sá hjálpaði Axel mikið. „Þetta var svo skrýtið. Þetta var fyrsti fullorðni maðurinn sem ég fann að ég gæti treyst. Það var svo skrýtið að fá þessa góðu tilfinningu fyrir honum, hann var svo rólegur. Ekki að skamma mig heldur að veita mér ráð.“

Róbert gaf Axel meðal annars dæmisögu af Manchester United. Frá þeim tímapunkti varð Axel harður stuðningsmaður félagsins. Presturinn spjallaði við (fóstur) foreldra Axels í kjölfar þess að hann skaðaði sig með glerbrotunum. Foreldrarnir tóku þó verr í það en Axel hafði vonast eftir. „Hann átti mjög alvarlegt spjall við þau en í framhaldinu var presturinn tekinn út af sakramentinu hjá gömlu hjónunum. Þau sögðu að það væri aldrei nokkur friður fyrir þessum presti, hann léti strákinn aldrei vera. Þannig var það öll árin fram undan,“ sagði Axel.

Boltinn var í raun besti vinur hans

Axel rifjaði upp þegar fósturamma hans gaf honum leðurbolta að gjöf er hann var níu ára gamall. Það áttu svo eftir að koma í ljós að Axel kunni ýmislegt fyrir sér í fótbolta. „Ég man leðurlyktina þegar ég opnaði pakkann. Ég var svo snortinn. Þessi bolti var mikið notaður og var í raun minn besti vinur í mörg ár. Lengst af í mínu lífi hef ég sótt styrk í boltann.“

Fósturpabbi Axels átti það til að vera harður við hann og stakk hann eitt sinn bolta drengsins þegar hann var ósáttur við hann. „Hann tók upp vasahnífinn og stakk á hann. Mér leið eins og það væri verið að stinga vin minn eða hestinn minn, þetta var ofboðslega sárt,“ sagði Axel sem náði að tjasla boltanum saman með hjálp fósturömmu sinnar.

Áfram var Róbert Jack í sambandi við Axel og hvatti hann áfram í fótboltanum. „Þrátt fyrir að ég hafi verið greindur með kvíðaröskun og verið þarna í ótta og kvíða var ég aldrei hræddur inni á vellinum. Það var bara mitt frelsi að fá að hlaupa og gera mitt besta. Ég lagði mig hundrað og tíu prósent fram.“

Jónína Ben vildi koma honum suður

Þegar Axel var í Reykjaskóla var Jónína Ben íþróttakennari hans og tók eftir hæfileikum drengsins á sviði knattspyrnunnar. Hún vildi að hann kæmist til höfðurborgarinnar að æfa af meiri krafti. Fósturforeldrar Axels tóku hins vegar illa í það þegar hún stakk upp á þessu við þau. „Það fór allt gjörsamlega í háaloft, það var staðið á öskrinu og henni hent út,“ sagði Axel.

Með hjálp Róberts Jack, sem þjálfaði um tíma hjá Val, fékk Axel að æfa einn vetur með 2. flokki félagsins. Hann naut þess og stóð sig vel. Þá hringdi fósturmamma hans hins vegar í hann grátandi með þeim afleiðingum að Axel fór aftur í sveitina. „Þá kemur hringingin, mamma hringir grátandi. Heyskapurinn er að byrja og pabbi alveg svartur og hún var svo hrædd. Stundum er svo skrýtið að stundum flýr maður. Þegar maður þekkir ekkert nema sársauka og kvíða, þá heldur hann svo fast um mann og maður sogast til baka inn í sársaukann. Ég slúttaði öllu og fór norur,“ sagði Axel.

Skoraði fyrir Manchester United

Róbert Jack reyndist honum þó áfram vel og skrifaði Matt Busby, leikmanni Man Utd sem hann þekkti, og kom Axel að á Old Trafford. Hann fékk að leika æfingaleik með félaginu. „Þjálfarinn les upp hvaða sextán eigi að mæta daginn eftir og kemur inn í búningsklefann. Það var númer níu, Gudmundsson. Ég ætlaði ekki að trúa þessu. Ég get ekki lýst því hvernig það var að hlaupa í rauðu Manchester treyjunni númer níu með leikmönnum inn á völlinn.“

Axel skoraði í þessum tiltekna leik. „Ég sé boltann koma koma, er kominn inn í vítateiginn og ég skutla mér fram til að skalla honum. Ligg bara í grasinu og svo koma þessar stórstjörnur og rífa mig á fætur og bara: great goal! Þetta var ólýsanlegt. Mín stærsta stund í lífinu fyrir utan það að vera viðstaddur fæðingu dætra minna.“

Brotnaði eftir meiðslin

Axel fékk boð um að æfa með varaliði Man Utd í kjölfarið. Róbert kom honum þó frekar að hjá Celtic í Skotlandi. Þar gekk vel. Axel hitti svo fyrir Albert Guðmundsson í Frakklandi og fékk samning þar í eitt ár. Þar meiddist Axel þó og reyndist það honum erfitt. „Róbert fer með mig til landlæknis og þá fékk ég dóminn að ég myndi ekki spila á hæsta leveli. Þetta var mikið niðurbrot.“

Axel fór í kjölfarið að misnota áfengi. Hann hélt aftur norður í sveit en lenti í slæmu bílslysi árið 1994. „Ég var búinn að vera í mikilli óreglu og það hafði varla runnið af mér í viku. Ég missi stjórn á bíl á leið á Skagaströnd um miðnætti og finnst ekki fyrr en sjö um morguninn.“

Hann fór inn á vog síðla sama ár. Axel hætti þá að drekka.

„Stefnan mín er að upplifa mig sem frjálsan einstakling og losna við reiði. Geta stigið inn í framtíðina sem frjáls maður. Ég á frábæra fjölskyldu og konu og góða vini og verð ævinlega þakklátur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Conte kominn með nýtt verkefni – Mun gera þriggja ára samning

Conte kominn með nýtt verkefni – Mun gera þriggja ára samning
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Sjáðu ótrúlegar myndir: Fann óvenjulegt vopn og hótaði öllu illu – Á von á harðri refsingu

Sjáðu ótrúlegar myndir: Fann óvenjulegt vopn og hótaði öllu illu – Á von á harðri refsingu
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Besta deild kvenna: Sandra skoraði fernu – Svakaleg endurkoma Stjörnunnar

Besta deild kvenna: Sandra skoraði fernu – Svakaleg endurkoma Stjörnunnar
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Varane þakkar stuðninginn og getur ekki beðið eftir endurkomunni

Varane þakkar stuðninginn og getur ekki beðið eftir endurkomunni
433Sport
Í gær

Enn og aftur orðaður við brottför – Hafa harðneitað að hann sé til sölu

Enn og aftur orðaður við brottför – Hafa harðneitað að hann sé til sölu
433Sport
Í gær

England: Sheffield er fallið úr efstu deild – Burnley fékk stig í Manchester

England: Sheffield er fallið úr efstu deild – Burnley fékk stig í Manchester